Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Stríðið í Úkraínu snýst um baráttu góðs og ills“

18.08.2022 - 17:35
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Úkraínska þjóðin þarf sárlega á því að halda að erlendar eignir rússneskra auðmanna, sem hafa verið frystar, nýtist Úkraínu. Þetta segir Kira Rudik, þinggkona í Úkraínu og leiðtogi Golos, næststærsta stjórnarandstöðuflokks landsins. Hún er afar þakklát fyrir stuðninginn sem Ísland hefur sýnt og segir að í þessum efnum sé ekkert sem heiti lítil þjóð. Allt skipti máli.

Rudik er stödd hér á landi til að funda með systurflokki Golos, Viðreisn. En koma hennar er líka hluti af ferðalagi um Evrópu sem hefur þann tilgang að afla áframhaldandi stuðning við Úkraínu, en hún er einnig varaformaður samtaka frjálslyndra stjórnmálaflokka. „Við erum mjög þakklát ykkur Íslendingum fyrir að yfir þúsund Úkraínumenn hafi fundið nýtt heimili hér. Kærar þakkir fyrir það.“

Hún nefnir einnig sem dæmi um mikilvægi góðs stuðnings að aukinn kraftur Úkraínumanna í stríðinu undanfarnar vikur sé fyrst og fremst til kominn vegna vopnasendinga frá Vesturlöndum. „Það er mikilvægt að átta sig á að þetta stríð er ekki aðeins milli Rússa og Úkraínumanna. Þetta snýst um gildi, sjálfstæði ríkja, baráttu góðs og ills. Við erum nú skjöldur fyrir alla Evrópu og við  munum halda því áfram, en til þess þurfum við stuðning.“

Kira segist að daginn sem árásin hófst hafi hún vaknað klukkan fimm að morgni við sprengingu, sem sé versta hljóðið sem hægt sé að vakna við. Hún hélt fyrst að þetta væru flugeldar, en úkraínska þingið hafði nýlega samþykkt bann við þeim. Þingið kom saman tveimur tímum seinna til að setja herlög. 400 af 420 þingmönnum mættu og setning herlaga tók aðeins tíu mínútur, enda varla þorandi að vera þarna lengur undir sprengingunum sem þá gengu yfir. En þar var ákveðið að leggja allan ágreining stjórnar og stjórnarandstöðu til hliðar og sýna samstöðu. Þingmenn sungu úkraínska þjóðsönginn meðan á atkvæðagreiðslunni stóð. 

Á þessari stundu var líka ákveðið að allir myndu finnar sér hlutverk í baráttunni sem hentaði þeim. Rudik hefur tekið að sér að ræða við aðrar þjóðir um stuðning. Hún segir að núna skipti mestu máli að fá fjárhagslegan stuðning, þar sem veturinn framundan verði erfiður.

„Það er orkukreppa, efnahagskreppa, stríð og fólk á flótta. Og við þessi skilyrði þurfum við peninga. Það er 5 milljarða dollara (tæplega 700 miljarða króna) halli á ríkinu á mánuði. Þess vegna er markmið mitt að þau lönd sem fryst hafa eignir Rússa aflétti frystingunni og noti eignirnar til að aðstoða Úkraínu. Það eru 500 milljarðar dollara (70 þúsund milljarðar króna) af rússneskum eignum í heiminum. Og við þurfum sárlega á þessum peningum að halda.“ Hún segir þetta lagalega krefjandi, en bendir á að Kanada hafi gert þetta og nú sé hún í viðræðum við Bandaríkin og Bretland um slíkt hið sama.

Í viðtalinu ræðir Kira einnig um hvernig sé að vera í stjórnarandstöðu við þessar aðstæður, hvaða áhrif harður úkraínskur vetur geti haft á stríðsreksturinn og hvernig Ísland getur áfram stuttu við Úkraínu á þessum tímum.  

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV