Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Endurvekur „hetjumóðurina“ í von um að fjölga Rússum

epa10124249 Russian President Vladimir Putin attends a working meeting via a video conference at the Novo-Ogaryovo state residence outside Moscow, Russia, 16 August 2022.  EPA-EFE/MIKHAIL KLIMENTYEV / KREMLIN POOL / SPUTNIK / POOL
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Í Rússlandi hefur fólki fækkað hægt og bítandi um langt árabil og eftir stutt skeið eilítillar fjölgunar fækkar rússnesku þjóðinni nú aftur og hraðar en áður. Til að snúa þessari þróun við hefur Vladimír Pútín grafið upp gamla heiðursnafnbót frá Sovét-tímanum og opnað rifu á ríkiskassann. Forsetinn lofar konum sem eignast tíu börn eða fleiri heiðursmerki og tignarheitinu Hetjumóður og einni milljón rúblna, jafnvirði ríflega tveggja milljóna króna.

Danska blaðið Politiken greinir frá þessu (áskriftarvefur) Haft er eftir Fleming Splidsboel, sérfræðingi í málefnum Rússlands og Úkraínu, að þetta séu viðbrögð Pútíns við þeim vanda sem viðvarandi fólksfækkun hefur í för með sér og ágerðist enn eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Áður hafi stjórnvöld í Moskvu reynt að hvetja til barneigna með hagstæðum lánakjörum fyrir barnafólk og lengri, launuðum barneignarleyfum, en það hafi ekki dugað til.

Grípa til sovéskra tákna til að hvetja Rússa til dáða

Kosturinn við „hetjumóðurina,“ segir Splidsboel, er að fólk veit fyrir hvað sú nafnbót stendur. „Menn grípa gjarnan til tákna frá sovéttímanum þegar ætlunin er að hvetja fólk til dáða í Rússlandi. Rússneska þjóðin þekkir hetjumóðurina, og því handhægt fyrir Pútín að reyna að beita henni fyrir sig.“

Verðlaunaféð, orðan og heiðurstitillinn hetjumóðir standa rússneskum konum til boða um leið og tiunda barnið þeirra verður eins árs gamalt. Öll börnin tíu þurfa að vera á lífi, en þó er gerð undantekning ef einhver þeirra hafa týnt lífinu við skyldustörf fyrir rússneska ríkið, í hryðjuverki eða við aðrar sambærilegar aðstæður.

Hetjumóðirin var fyrst kynnt til sögunnar af Jósef Stalín árið 1944, þegar milljónir rússneskra hermanna höfðu fallið á vígvellinum og brýnt þótti að hvetja þjóðina til að fjölga sér sem hraðast og mest. Titillinn var svo aflagður fljótlega eftir fall Sovétríkjanna 1991. 

Samkvæmt tölfræðivefnum Macrotrends eru Rússar nú rétt rúmlega 144,7 milljónir talsins en voru 148,9 milljónir þegar þeir voru flestir, árið 1993.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV