Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Búast við skýrslunni um mánaðamótin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Búist er við að Ríkisendurskoðandi skili skýrslu, um sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka, til Alþingis um mánaðamótin. Þetta segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, við fréttastofu.

Þá mun skýrslan hafa verið til umsagnar þeirra aðila sem efni hennar snerta. Gera má ráð fyrir að það séu meðal annars fulltrúar Bankasýslu ríkisins, sem annaðist söluna, auk fleiri aðila. Upphaflega átti að birta skýrsluna í júní en það hefur tafist, fyrst fram í júlí en svo til mánaðamóta ágústs og september.

Þing kemur mögulega saman fyrir þingsetningu

Rætt var um það við þinglok í vor að ef skýrslan berst fyrir þingsetningu 13. september þá verði þing mögulega kallað saman. Birgir Ármannsson segir að ekki hafi enn verið gerðar sérstakar ráðstafanir vegna þessa, enda liggi endanleg dagsetning ekki fyrir. Ef þing verður svo hafið þegar skýrslan berst til Alþingis, verði að skoða hvort hún geti fallið inn í fyrirframákveðin þingsköp eða hvort sérstakur fundur verði haldinn til þess að ræða efni hennar. 

Í júní í fyrra hóf ríkið að selja hluti sína í Íslandsbanka, fyrst 35% hlut með opnu hlutafjárútboði en síðan var 22,5% hlutur ríkisins seldur í mars á þessu ári í lokuðu útboði. Mikill styr stóð um lokuðu söluna í kjölfarið. Mótmælt var á Austurvelli og fyrir framan Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu. Stjórnarandstöðuþingmenn fóru fram á afsögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og að skipuð yrði sérstök rannsóknarnefnd um málið. 

Svo fór ekki og Ríkisendurskoðun var að lokum falið að vinna skýrslu um framkvæmd sölunnar. Eins og áður segir er búist við að skýrslan komi fyrir augu þingmanna um mánaðamótin.