Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Annað hvort öflugan Landspítala eða þrot

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Stjórnvöld þurfa að ákveða hvort byggja á upp öflugan Landspítala eða að spítalinn stefni í þrot. Þetta segir formaður fagráðs Landspítala. Ef veita á heilbrigðisþjónustu í fremstu röð þurfi að auka fjármagn til hennar. 

Forstjóri Landspítalans sagði í Hádegisfréttum í gær að staðan hefði aldrei verið jafn slæm og nú og að það stefni í þrot náist ekki að fjölga starfsfólki. Formaður fagráðs spítalans tekur undir þetta og bendir á að árum saman hafi verið varað við þeirri slæmu stöðu sem spítalinn er nú kominn í.

Hefur þá ekki verið hlustað á þessar aðvaranir?

„Sannarlega ekki nógu vel.  Það hafa verið gefnar út margar skýrslur, fólk hefur komið með alls konar ályktanir. Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og margar fleiri stéttir komið með ýmsar ályktanir og skýrslur. Við búum hér á eyju. Hvað viljum við? Viljum við hafa heilbrigðikerfið í fremstu röð þar sem fólk getur fengið eins fullkomna þjónustu og völ er á. Eða viljum við hafa það að stærsta stofnunin, háskólasjúkrahúsið, sé stöðugt í fréttum af því að það getur ekki annað verkefnunum sínum. Þetta er pólitísk ákvörðun sem þarf að taka. Það hefur komið skýrt fram í gegnum tíðina að Íslendingar vilja sannarlega hafa heilbrigðisþjónustu í fremstu röð,“ segir Marta Jóns Hjördísardóttir, formaður fagráðs Landspítala.

Ekki hafi verið gert nógu mikið til að efla spítalann. 

„Við erum með mannfjöldaspár um aukinn fjölda aldraðra, við erum með aukin verkefni. Við erum núna með fólk sem lifir lengur með alvarlega sjúkdóma. Það þarf að mennta fleiri. Við þurfum kannski að hugsa svolítið einmitt út fyrir kassann. Er einhver leið til að mennta fleiri án þess að slá af kröfunum eða slá af gæðunum. Svo verðum við að vera með skýra stefnu og skýra pólitíska ákvörðun, hvað viljum við og hvert erum við að fara með þetta. Ef það er pólitískur vilji til þess að hafa heilbrigðisþjónustu í fremstu röð, þá þarf að auka fjármagn inn í heilbrigðisþjónustuna. Ekki bara í Landspítalann heldur alveg víðtækt,“ segir Marta.

Snýst þetta um launahækkanir?

„Þetta snýst að sjálfsögðu líka alltaf um launahækkanir því fólk vill fá laun í samræmi við menntun, ábyrgð og í samræmi við það sem þau eru að gera,“ segir Marta.

Mannekla hafi lengi verið vandamál.

„Þetta er búið að ganga kannski í svolítið langan tíma. Þetta bara mun kosta peningar og við verðum að sætta okkur við það. Við getum ekki lokað bráðamóttökunni og sent fólk eitthvert annað,“ segir Marta.