Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Aganefnd KSÍ staðfestir 5 leikja bann Arnars

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Aganefnd KSÍ staðfestir 5 leikja bann Arnars

18.08.2022 - 18:45
Aganefnd KSÍ staðfesti í dag fimm leikja bann Arnars Grétarssonar þjálfara KA í Bestu deild karla í fótbolta. KA áfrýjaði banninu en varð ekki ágengt. Þetta er eitt lengsta bann sem þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu á Íslandi hefur verið úrskurðaður í.

Arnar fékk sjálfkrafa tveggja leikja bann fyrir rautt spjald í leik KA og KR þann 2. ágúst sl. þar sem þetta var annað rauða spjaldið hans á tímabilinu. Refsingin er svo þyngd um þrjá leiki til viðbótar vegna „alvarlegrar og vítaverðar framkomu gagnvart dómara og varadómara leiksins " eins og segir í úrskurði aganefndar. Einnig var 100.000 króna sekt knattspyrnudeildar KA staðfest.

Úrskurð aganefndar KSÍ má lesa hér í heild en í honum segir m.a. eftirfarandi:

Á 90+4 mín leiksins gerði KA kröfu um að fá dæmda vítaspyrnu. Þjálfari KA, Arnar Grétarsson, mótmælti kröftuglega að ekki skyldi dæmd vítaspyrna á leikmann KR. Þegar þjálfarinn var að mótmæla gekk hann nokkra metra inn á leikvöllinn. 4ði dómari leiksins óskaði samstundis eftir því að dómarinn kæmi í tæknisvæðið og gæfi þjálfara KA rautt spjald.

Þegar dómari leiksins var á leiðinni að tæknisvæðinu notaði þjálfari KA særandi og móðgandi orðbragð gagnvart 4ða dómara og slíkt gerði hann einnig þegar dómarinn sýndi honum rauða spjaldið. Þjálfarinn fór frá tæknisvæðinu um leið og honum var sýnt spjaldið. Hann labbaði frá tæknisvæðinu aftur fyrir aðstoðardómara eitt á leið sinni að áhorfendasvæðinu. Þegar hann gekk framhjá aðstoðardómara eitt notaði hann særandi og móðgandi orðbragð gagnvart honum og dómarateyminu í heild sinni.

Eftir að leik lauk kom þjálfarinn inná völlinn og gekk rakleitt að 4ða dómara leiksins sem stóð við tæknisvæðin og hélt áfram að nota svívirðilegt og móðgandi orðbragð gagnvart honum. Því næst gekk hann að dómaranum og aðstoðardómurunum sem still höfðu sér upp á miðjum vellinum. Þar voru leikmenn og forráðamenn beggja liða að þakka fyrir sig. Þegar þjálfari KA tók í höndina á aðstoðardómara eitt þá sýndi hann af sér ógnandi hegðun gagnvart honum. Þjálfarinn hélt áfram að nota særandi og móðgandi orðbragð gagnvart 4ða dómara leiksins þegar dómarar leiksins
gengu af velli.

Ekki urðu frekari orðaskipti þegar til búningsherbergja var komið eða þegar dómarar voru að yfirgefa leikstaðinn.

Svívirðingar hafi haldið áfram daginn eftir

Að kvöldi 3. ágúst, sólarhring eftir umræddan leik, barst skrifstofu KSÍ viðbótarskýrsla frá varadómara í leik KA og KR, Sveini Arnarssyni, vegna atvika, sem samkvæmt skýrslunni áttu sér stað degi eftir leikinn. Í skýrslunni segir að hann hafi verið staddur í anddyri félagsheimilis KA að aðstoða son sinn sem var að mæta á knappspyrnuæfingu hjá félaginu í hádeginu þann 3. ágúst þegar hann mátti þola fleiri svívirðingar frá Arnari.

Í viðbótarskýrslunni segir:

Ég náði mér því næst í kaffibolla. Þjálfari karlaliðs meistaraflokks, Arnar Grétarsson, verður þess var og spyr hvað ég sé eiginlega að gera þarna og hvernig ég vogi mér að mæta á þennan stað, tjáði mér með offorsi að hann vildi mig í burtu af svæðinu. Síðan upphélt hann sama móðgandi og
særandi orðbragðið í minn garð vegna leiksins deginum áður og stoð sá flaumurí um eina mínútu.

Orðaval af þessu tagi fannst mér særandi og hegðun ógnandi þar sem hann gekk mjög nálægt mér. Ég tjáði þjálfaranum að þetta væri komið gott og ætlaði mér að halda leið minni áfram. Þegar ég gekk í burtu gat ég ekki greint það orðaval sem hann hafði uppi í minn garð á meðan ég hélt áleiðis til að halda afram að aðstoða barn mitt, en heyrði að hann hélt áfram að tala til mín þar til hann hvarf sjónum.

Viðbótarskýrslan bætti einum leik við bannið

Í skýrslu aganefndar segir að bann Arnars hafi verið þyngt um einn leik vegna viðbótarskýrslunnar eða atviksins í KA heimilinu daginn eftir leikinn. Framkoma þjálfarans í leiknum sjálfum hafi kostað hann tveggja leikja bann og rauða spjaldið sjálfkrafa tvo leiki í bann.

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Arnar Grétarsson í eitt lengsta bann sem sögur fara af