Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

26 fórust í skógareldum í Alsír

18.08.2022 - 00:56
epa09410384 Burnt trees are seen following a wildfire in the village of Ben Douala near Tizi Ouzou, in the mountainous Kabyle region, 100 km east of Algiers, Algeria, 11 August 2021. According to the official news agency APS (Algeria Press Service), the death toll of forest fires rose to reach 65 deaths nationwide, including 37 civilians and 28 soldiers.  EPA-EFE/STR
Frá Kabyle-héraði í Alsír, þar sem mannskæðustu skógareldar sem sögur fara af í landinu geisuðu í ágúst 2021 og æstur múgur tók hjálpfúsan sjálfboðaliða af lífi án dóms og laga, eftir að tilhæfulaus kvittur komst á kreik um að hann hefði kveikt eldinn. Mynd: epa
Mannskæðir skógar- og kjarreldar hafa geisað í Alsír síðustu vikur og á miðvikudag fórust minnst 26 í slíkum eldum í norðurhluta landsins, þar sem skóglendi er mest. Þar loguðu í gær 39 eldar í 14 héruðum samkvæmt frétt AFP, sem hefur þetta eftir almannavörnum í Alsír. Tugir til viðbótar særðust í eldum gærdagsins.

Yfir 100 skógar- og kjarreldar hafa blossað upp í Alsír frá ágústbyrjun, sviðið um 25 ferkílómetra gróðurlendis og orðið 30 manns að bana.

Alsír er stærsta land Afríku, tæplega 2,4 milljónir ferkílómetrar að flatarmáli.Skógar þekja þó einungis rúmlega 40.000 ferkílómetra, eða innan við tvö prósent landsins, og eru að mestu bundnir við norðurhluta þess og fjalllendið þar. Engu að síður kvikna ófáir eldar af þessu tagi í Alsír ár hvert og eru ósjaldan mannskæðir. Í fyrra fórust minnst 90 manns í eldum sem brenndu um 1.000 ferkílómetra skógar í landinu.