Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

23 dóu í rútuslysi í Marokkó

18.08.2022 - 05:34
epa08316393 Moroccan officers stand near an ambulance carrying a suspected case of coronavirus in Rabat, Morocco, 23 March 2020. According to Moroccan authorities, 12 new cases of the novel coronavirus were reported in Morocco on 23 March bringing the total number to 134 cases.  EPA-EFE/JALAL MORCHIDI
Undanfarin ár hafa að jafnaði um 3.500 manns farist í umferðinni í Marokkó á ári hverju og um 12.000 slasast Mynd: epa
23 manneskjur létu lífið þegar rúta valt í beygju á þjóðvegi austur af borginni Casablanca í Marokkó í gær morgun, og 36 til viðbótar slösuðust. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir Rochdi Kaddar, yfirmanni heilbrigðismála í Khouribga-héraði, þar sem slysið varð. Hin slösuðu voru flutt á sjúkrahús í héraðshöfuðborginni Khouribga og rannsókn er hafin á tildrögum slyssins.

Rútan var á leið frá Casablanca til Ait Attab-héraðs við rætur Atlasfjalla þegar hún valt. Slysið er eitt mannskæðasta bílslys sem orðið hefur í Marokkó um nokkurra ára skeið, segir í frétt AFP. Þar segir enn fremur að banaslys séu giska algeng í umferðinni í Marokkó. Um 3.500 manns hafa dáið þar á ári síðustu ár, eða um tíu á dag að meðaltali, samkvæmt umferðaröryggisstofnun landsins. Þá slasast að jafnaði um 12.000 manns á ári í marokkósku umferðinni.