Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þetta var bara ógeðslega erfitt“

Mynd: María Björk Guðmundsdóttir / RÚV

„Þetta var bara ógeðslega erfitt“

17.08.2022 - 20:47
Hjólreiðamaðurinn Ingvar Ómarsson hafnaði í 30. sæti í tímatöku á EM í götuhjólreiðum í dag. Þátttakendur voru og Ingvar hjólaði á 31 mínútu og 12,19 sekúndum. Í viðtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson að lokinni keppni í dag mátti sjá að keppnin reyndi verulega á.

„Púlsinn er bara í maxi eftir þetta,“ sagði Ingvar strax að lokinni keppni þegar Þorkell Gunnar greip hann í viðtal.

„Þetta var bara ógeðslega erfitt. Helvíti erfiðar aðstæður, alla vega fyrir mig.“ Ingvar vísar þarna í hitann sem var kæfandi meðan á keppni stóð í dag.  „Þetta gæti samt alveg verið verra. Það er skýjað í dag þannig að ég ætla ekki að kvarta of mikið en það var rosalega heitt. Ég var bara að grillast allan tímann en það er svo sem ekkert óeðlilegt, þetta eru útlönd.“

Ingvari fannst brautin vera góð í dag „bara rosalega þægileg og vel hönnuð braut, ekkert vesen og maður var aldrei neins staðar í neinni hættu að fara of hratt eða eitthvað svoleiðis, ég myndi kalla þetta örugga keppni þannig séð.“

Ingvar fór mjög hratt upp fyrstu brekkuna og mjög fljótlega fór hann fram úr keppenda frá Kósóvó. „Ég fór ansi hratt upp brekkuna, sennilega of hratt en það er náttúrúlega bara eitthvað sem getur gerst. Ég var með í huga að ég myndi vilja alla vega sjá keppanda fyrir framan mig. Hann ræsti þarna 90 sek á undan mér þannig að ég vissi að ef ég myndi sjá hann væri ég ekki að fara að verða síðastur. Og það er það hátt level hérna, keppnisstigið er næsthæst í heiminum hérna, og mér langaði að eiga góðan dag og það gerði bara nokkuð gott fyrir hausinn að ná þessum keppenda þarna,“ sagði Ingvar að lokinni keppni í dag.