Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óttast að þarfir yngstu barnanna séu settar til hliðar

17.08.2022 - 12:23
Mynd: ruv / ruv
Samfélagslegt átak þarf til að sinna þörfum yngstu leikskólabarnanna svo vel sé, segir doktor í menntunarfræði ungra barna. Hún óttast að þarfir þeirra séu ekki í forgrunni við úrlausn leikskólavandans.

Svikin loforð

Krafan um leikskólapláss fyrir börn frá 12 mánaða aldri er hávær um þessar mundir, kannski skiljanlega. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í vor var því lofað að öll börn, 12 mánaða og eldri, í Reykjavík fengju leikskólapláss í haust. Nú er ljóst að svo verður ekki. Á sjöunda hundrað börn, 12 mánaða og eldri, eru á biðlista eftir leikskólaplássi hjá Reykjavíkurborg. Áætlað er að um það bil 200 þeirra komist að í haust. 

Hvað þurfa börnin?

Hrönn Pálmadóttir, dósent við deild kennslu- og menntunarfræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir að ráðast þurfi í samfélagslegt átak til þess að sinna þörfum yngstu barnanna betur.  

„Undanfarinn svona áratug eða tvo hefur rannsóknum sem beinast að því að reyna að skilja sjónarhorn barna og þar sem verið er að horfa á lífið út frá sjónarhorni barna, þeim hefur fjölgað. Sömuleiðis hefur barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna haft mikil áhrif og það tengist þessu rannsóknarsjónarhorni,“ segir Hrönn. Hún bendir á að skuldbindingar hafi verið gerðar við undirritun sáttmálans. 

„Það kemur fram í einni greininni þar að ákvarðanir yfirvalda skuli byggjast á því sem er barni fyrir bestu. Það er mikilvægt í því samhengi að horfa til þess: hvað segja börnin okkar? Hvernig getum við nálgast þeirra sjónarhorn. Það er meðal annars þetta sem ég hef lagt áherslu á í mínum rannsóknum. Það er að elta börnin og reyna að skilja þeirra upplifun yfir daginn.”

Flókið verkefni

Hrönn segir engar skyndilausnir til við því flókna verkefni sem umönnun og menntun yngstu leikskólabarnanna sé. Áherslan megi ekki aðeins vera á að koma foreldrum aftur út á vinnumarkaðinn. Þarfir barnanna sjálfra þurfi að vera í forgrunni. 

„Ég hef fullan skilning á þessu neyðarópi, í raun og veru, frá foreldrum. Fólk á Íslandi og ungir foreldrar þurfa að vinna, allaveganna allflestir, til að ná endum saman og þess vegna hef ég fullan skilning á því en hins vegar held ég að mörgu leyti að við náum ekki að ganga í takt.“ Það sé ekki sér-íslenskt að börn hefji leikskólagöngu í kringum 12 mánaða aldur.

Of löng viðvera

„Það eru náttúrulega bara breytingar í samfélögum í hinum vestræna heimi að börnin fái að komast inn í leikskóla. Foreldrar kalla eftir að leikskólar mennti börnin þeirra frá eins árs aldri. En kannski það sem er sér-íslenskt er þessi langa viðvera. Ég held það séu fáir foreldrar sem óska þess endilega að hafa barnið sitt á leikskóla í 8-8,5 klukkutíma á dag. Þar kalla ég aftur eftir svona samfélagslegu átaki, þetta er samfélagsleg ábyrgð.“

Hrönn segir að samfélagið þurfi að ráðast í endurskoðun á því fyrirkomulagi sem knýi foreldra til að verja svo löngum stundum frá ungum börnum sínum.

„Já, þannig að foreldrum væri gert kleift að vera lengur heima með börnum sínum eða að stytta daginn þannig að fólk kæmist þokkalega af. Hugsanlega þyrfti fólk að endurskoða lífsstíl sinn en ég ætla nú ekki út í þá sálma. En mér dettur í hug bara ríkisvaldið og fæðingar- og foreldraorlofið, væri hægt að lengja það? Er það mál sem við ættum að fara að horfa til?“ 

Stöðugleiki mikilvægur

Á síðustu tveimur árum var fæðingarorlofið lengt úr níu mánuðum í 12 samtals. Stefna borgarinnar er að brúa bilið milli foreldrarorlofs og leikskóla. Þannig ætti leikskóli að taka við börnum strax að foreldraorlofi loknu, við 12 mánaða aldur. En það hefur ekki tekist.  

„En til þess að það takist og þetta verði ákjósanlegur kostur þá vantar ýmislegt upp á. Til dæmis eins og margir hafa bent á og ég þarf ekkert að endurtaka er þessi mönnunarvandi í leikskólum. Við erum að tala um börn sem eru eins árs, þetta er viðkvæmasti hópurinn okkar. Auðvitað þurfa öll börn stöðugleika en þessi hópur, stöðugleiki skiptir gríðarlega miklu máli þessi fyrstu ár og fyrstu mánuði barnsins þegar það fer að heiman. Þannig að ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig okkur tekst að gera leikskólann að raunverulega góðum menntakosti fyrir þessi ungu börn. Ég held það þurfi bara svona samfélagslegt átak til þess.“ 

Menntastofnun eða barnageymsla?

En er hægt að telja vistun fyrir svo ung börn til menntastofnunar, er þetta ekki bara geymsla?

„Rannsóknir sýna að þetta getur verið góð menntastofnun en það þarf ýmislegt til. Til dæmis fagfólk sem þekkir þroska og hvernig nám þessara ungu barna fer fram. Það er ekki nóg bara að byggja leikskóla til að koma börnum inn,” segir hún. Áhersla þurfi að vera á að fá til verksins fagfólk sem kann að bregðast við tjáningu svo ungra barna því hún, segir Hrönn, sé sannarlega til staðar þótt orðin séu það ekki. Þá skipti líka máli að hópar þessara yngstu barna séu ekki of fjölmennir. 

 „Og að ég kunni að bregðast við tjáningu þeirra. Þetta eru jú börn sem eru ekki farin að nota tungumálið sem sína aðaltjáskiptaleið og þau eru á máltökuskeiði þannig að þarna þarf fólk að kunna til verka. Það þarf að kunna að skipuleggja starfið þannig að það veiti hverju barni tækifæri til náms og þroska.“

Hún óttast að sú hraða uppbygging og mikla pressa sem nú er á því að hraða ferlinu leiði af sér of fjölmenna barnahópa. Það dragi úr möguleikum kennara til að bregðast við hverju og einu barni af þeirri fagmennsku sem hún segir að leikskólarnir eigi að standa fyrir. 

Mótandi fyrir lífstíð

Hrönn segir mikilvægan þroska eiga sér stað hjá börnum á aldrinum 12 mánaða til 24 mánaða. Þau séu alls ekki bara óvitar sem þurfi að passa að fari sér ekki að voða. 

„Það er gríðarlega mikið sem gerist þarna á þessu ári. Það sem hefur gerst í fræðaheiminum eftir að þau fóru að koma svona ung inn á leikskóla er að þá hefur komið í ljós hversu hæf og virk og viljug til náms þessi ungu börn eru. Við höfum séð hversu fær þau eru en um leið og við tölum um hversu hæf þau eru þá eru þau líka gríðarlega viðkvæm. Þannig að það gerist mikið með góðum stuðningi á þessum ári,” segir Hrönn. 

„Heilarannsóknir sína okkur að samskipti og þessar tengingar sem eiga sér stað í heilanum og þau samskipti og umhyggja sem börn upplifa á þessum fyrstu árum sínum sem má kannski segja að sé allur leikskólaaldurinn og fyrstu árin í grunnskóla, þau skipta gríðarlegu máli fyrir lífstíð.” Því sé þeim mun mikilvægara að nálgast verkefnið af fagmennsku, segir Hrönn að lokum.

Rætt var við Hrönn Pálmadóttur, doktor í menntunarfræði ungra barna í Speglinum. Hægt er að hlusta á viðtalið við hana í spilaranum hér fyrir ofan.