Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Miklir skógareldar loga enn á Íberíuskaganum

17.08.2022 - 01:34
epaselect epa10119658 Firemen fight a forest fire in Vila Cortes do Mondego, Guarda, Portugal, 13 August 2022. Currently 1262 operational and 375 vehicles are fighting the forest fire.  EPA-EFE/NUNO ANDRÉ FERREIRA
 Mynd: EPA-EFE - LUSA
Hundruð slökkviliðsmanna leggja nótt við dag í baráttunni við ógnarmikla skógarelda sem enn brenna á Spáni og í Portúgal. Um 300 slökkviliðsmenn unnu að því alla aðfaranótt þriðjudags að koma einhverjum böndum á stóran skógareld í nágrenni borgarinnar Valencia á austurströnd Spánar og álíka margir tóku við keflinu þegar dagur reis.

Sá eldur kviknaði út frá eldingum á laugardag og breiddist hratt út. Hann hefur þegar sviðið nær 100 ferkílómetra skóglendis og hrakið yfir 1.500 manns frá heimilum sínum.

Þrennt alvarlega slasað

Fjöldi slökkviliðsmanna berst svo við tvo aðra skógarelda á svipuðum slóðum. Þrír lestarfarþegar slösuðust alvarlega þegar lestin sem þeir ferðuðust með ók inn í annan þessara elda, og átta til viðbótar slösuðust minna.

Yfir 3.500 ferkílómetrar brunnir á Íberíuskaganum

Um miðbik Portúgals hefur slökkviliði tekist að hefta frekari útbreiðslu heljarmikils skógarelds í þjóðgarði sem er á náttúruminjaskrá UNESCO. Yfir 1.200 slökkviliðsmenn hafa unnið að því að slökkva og hemja eldinn, sem sveið yfir 150 ferkílómetra skóglendis áður en böndum var komið á hann.

Það sem af er ári hefur 391 skógar- og gróðureldur verið skráður hjá yfirvöldum á Spáni og sviðið ríflega 2.700 ferkílómetra af grónu landi. Í Portúgal hafa 195 slíkir eldar logað og skilið eftir sig nær 850 ferkílómetra af sviðinni jörð.