Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hvaða önnur starfsstétt berst ekki fyrir sínu?

Mynd: RÚV / RÚV

Hvaða önnur starfsstétt berst ekki fyrir sínu?

17.08.2022 - 09:25

Höfundar

„Ekki alltaf þetta hálfkák,“ biður Sverrir Norland, rithöfundur og bókaútgefandi sem er umhugað um starfsöryggi barna- og unglingabókahöfunda. Hann segir brýnt að hlúa að útgáfu bóka fyrir yngri lesendur sem skorti sárlega bækur sem fylgi takti og tíma.

Sverrir Norland rithöfundur vakti nýlega athygli á því í pistli sínum að starfsumhverfi þeirra sem skrifa bækur fyrir börn og unglinga sé ekki nægilega gott. „Það hefur alltaf verið litið á það sem hliðarbúgrein eða ekki alveg jafn fínt að skrifa fyrir krakka og að skrifa fyrir fullorðna á Íslandi.“ Sverrir ræddi málið í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. 

Meðalaldur listamannalaunaþega of hár 

Viðhorf til barnabókaskrifa segir Sverrir að kristallist í úthlutunum listamannalauna í bókmenntum. „Ef við erum að hugsa um starfsumhverfi þá er það þannig að ritlaunin renna eiginlega eingöngu til þeirra sem skrifa fyrir fullorðna.“ Launin renni að renni að mestu til höfunda sem þegar hafi sannað sig og verið starfandi um langt skeið.

„Ég velti því fyrir mér af hverju það væri eins og það væri einbeitt stefna þeirra sem úthluta ritlaunum að reyna að halda meðalaldrinum yfir 50 árum,“ bætir hann við. Starfsöryggi þessa hóps segir Sverrir mikilvægt að tryggja. Ekki er þó síður mikilvægt að stuðla að nýliðun í starfsliði rithöfunda. „Sennilega þarf að stækka sjóðinn svo við höldum áfram að búa til nýja rithöfunda.“

Kennarar kalla eftir bókum 

Sverrir hefur ferðast víða um land og haldið sagnasmiðjur með krökkum í grunnskólum landsins. Hann segir skilaboð kennara skýr. „Kennarar nefna það oft að það vanti bókstaflega fleiri spennandi bækur fyrir krakka sem vilja lesa meira á íslensku.“ Kennarar treysta á bækur sem hæfa ungum lesendum og veki áhuga þeirra. Það þýði lítið að draga fram gamlar rykfallnar skræður sem fjalla ekki um veruleika krakkanna.  

Því miður er staðan sú að áhugasamir yngri lesendur færa sig fljótt yfir í bækur á ensku. Af þessum sökum segir Sverrir verkefnið sérstaklega verðugt. „Við þurfum að tryggja að það verði til ný stétt af lesendum á íslensku.“

„Heldur þú að aðrar starfsstéttir berjist ekki fyrir sínu?“ 

Til að hlúa að útgáfu barnabóka leggur Sverrir til að búinn verði til sérstakur sjóður sem styðji við þá sem skrifa fyrir börn og unglinga. Tryggja þurfi 20-30 rithöfundum ritlaun um nokkurra ára skeið í senn. „Ekki alltaf þetta hálfkák.“  

Starfsöryggi rithöfunda segir Sverrir óstöðugt. Rithöfundum eru úthlutaðir nokkrir mánuðir í einu og þurfa því margir að sinna öðrum störfum samhliða skrifum. Til að hlúa að menningu í landinu og svara kalli skólakerfisins segir Sverrir að brýnt sé að bæta starfskjör höfunda. Hann harmar að ekki láti nægilega margir rithöfundar að sér kveða í umræðunni. „Heldur þú að aðrar starfsstéttir berjist ekki fyrir sínu?“ spyr Sverrir að lokum.

Rætt var við Sverri Norland í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hlýða má á þáttinn í heild sinni í hér í spilara RÚV.