Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hilmar með sitt lengsta kast í ár og er kominn í úrslit

Mynd: EPA / EPA

Hilmar með sitt lengsta kast í ár og er kominn í úrslit

17.08.2022 - 09:39
Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson átti sitt lengsta kast í ár þegar hann kastaði 76,33 m í þriðju og síðustu umferð forkeppni sleggjukastsins á Evrópumótinu í München. Það dugar honum í úrslit sleggjukastsins á EM sem verða annað kvöld. Þetta fékkst endanlega staðfest eftir að keppendur í B-riðli forkeppninnar luku keppni, kast Hilmars var sjöunda lengsta kast dagsins.

Hilmar þurfti að bæta Íslandsmet sitt, 77,10 m til þess að vera öruggur inn í úrslitin. Það þurfti nefnilega að kasta 77,50 m eða lengra til að tryggja sér sæti í úrslitum. Annars yrðu það þeir tólf kastarar sem köstuðu lengst sem færu í úrslitin. Hilmar hefur verið í góðu formi í sumar og á sínu öðru stórmóti á skömmum tíma. Hann var hársbreidd frá því að komast í úrslit á HM í Eugene, Oregon í síðasta mánuði, þar sem langt síðasta kast hans var dæmt hárfínt ógilt.

Í forkeppni kastgreina í frjálsíþróttum fær hver keppandi þrjú köst. Hilmar- sem var fyrstur í kaströðinni af þrettán keppendum í sínum riðli gerði ógilt í sínu fyrsta kasti, en náði svo prýðilegu öðru kasti. Það var gilt og mældist 72,87 m sem kom honum á þeim tímapunkti upp 4. sæti A-riðilsins. Þriðja og síðasta kast Hilmars var svo virkilega gott. Hann átti risakast upp á 76,33 m sem er hans lengsta kast í ár. Með því kom hann sér upp í 3. sætið í sínum riðli og nokkuð ljóst að hann myndi fara í úrslit. Í B-riðlinum köstuðu fjórir keppendur lengra en Hilmar og einn jafn langt, Hilmar var því sjöundi inn í úrslitin. Kast Hilmars má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Úrslitin klukkan 18:10 á morgun

Pólverjinn Wojciech Nowicki var sá eini í A-riðlinum sem tryggði sig í úrslit á kasti lengra en 77,50. Það kom strax í fyrsta kasti og reyndist 78,78 m. Nowicki er raunar enginn aukvisi. Hann er ríkjandi Evrópumeistari í sleggjukasti, Ólympíumeistari í greininni frá því í Tókýó í fyrra og vann silfur á HM í síðasta mánuði.

Úrslit sleggjukastsins fara fram annað kvöld klukkan 18:10. Sú keppni verður að sjálfsögðu sýnd í beinni útsendingu á RÚV 2. 

Fréttin hefur verið uppfærð með úrslitum úr undanriðli B.