Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

89 milljarða sekt vegna ópíóíðafaraldursins

17.08.2022 - 23:36
FILE - This June 17, 2019, file photo shows 5-mg pills of Oxycodone. Native American tribes in the U.S. have reached settlements worth $590 million over opioids. A court filing made Tuesday, Feb. 1, 2022 in Cleveland lays out the details of the settlements with drugmaker Johnson & Johnson and distribution companies AmerisoruceBergen, Cardinal Health and McKesson. (AP Photo/Keith Srakocic, File)
 Mynd: AP
Verslanakeðjunum Walmart, Walgreens og CVS í Bandaríkjunum hefur verið gert að greiða tveimur sýslum í Ohio samtals 650 milljónir dollara, andvirði 89 milljarða króna, fyrir að hafa mistekist að vinna bug á ópíóíðafaraldrinum þar í landi.

Í dómi segir að verslanakeðjurnar þrjár hafi virt að vettugi mikilvægt hlutverk sitt í baráttunni gegn faraldrinum.

Faraldurinn hefur lagst sérstaklega illa á miðvesturríki Bandaríkjanna, einmitt Ohio og ríkin í kring. Yfirvöld í Turnbull-sýslu og Lake-sýslu í Ohio segja að skaðabótunum verði veitt til fræðslu um skaðsemi ópíóíða. 

Walmart áfrýjar

Í nóvember í fyrra féll dómur í máli þessara sömu fyrirtækja, en þá fyrir ólöglega viðskiptahætti þeirra sem leiddu til þess að offramboð var af sterkum verkjalyfjum, gjarnan ópíóíðaskyldum. Það var í fyrsta sinn sem dómur vegna ópíóðiafaraldursins féll yfir söluaðilum ópíóíðalyfja en ekki framleiðendum þeirra. 

Síðastliðna tvo áratugi hafa um 500 þúsund manns látist vegna ofskömmtunar þessara mjög svo ávanabindandi verkjalyfja. 

Walmart hefur þegar áfrýjað dómnum og talsmenn verslunarrisans segja að dómurinn stangist á við lagaákvæði um friðhelgi sambands milli lækna og sjúklinga. Dómurinn grundvallist á því að dreifingaraðilar véfengi uppáskriftir lækna á þann hátt sem lögum þar um var aldrei ætlað að ná yfir. 

Lyfjasölurisarnir bandarísku, Rite-Aid og Giant Eagle hafa þegar náð sátt um greiðslu skaðabóta til handa sýslunum tveimur.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV