Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Týr og Ægir kvaddir

Mynd með færslu
Varðskipið Týr. Mynd: Landhelgisgæsla Íslands
Varðskipin Týr og Ægir eru komin úr þjónustu Landhelgisgæslunnar, en þau voru afhent nýjum eiganda við athöfn í Sundahöfn í gær. Fyrrverandi skipverjar drógu skutfánann niður en starfsmenn Landhelgisgæslunnar stóðu heiðursverð. Afsal vegna sölunnar var undirritað í kjölfarið.

Í nóvember í fyrra var nýtt skip Landhelgisgæslunnar, Freyja, tekið í notkun. Hún var smíðuð í Suður-Kóreu árið 2010 en kaupverðið nam rúmum 1,8 milljörðum króna.

Ægir var smíðaður í Álaborg árið 1968 og var í rekstri Gæslunnar til ársins 2015. Hann var nýttur í þorskastríðunum, bæði þegar landhelgin var færð út í 50 mílur og 200. Það var áhöfn hans sem beitti togvíraklippunum á breska togara í fyrsta sinn 5. september 1972, eins og rakið er í færslu Landhelgisgæslunnar á Facebook. 

Varðskipið Týr var afhent Gæslunni árið 1975 og einnig nýtt í 200 mílna þorskastríðinu.

Ekki kemur fram hver kaupandinn er. Morgunblaðið greindi frá því í febrúar að tvö tilboð hefðu borist í skipin, en hærra tilboðið hefði numið 125 milljónum króna. Síðar var fallið frá þeim kaupum.

Auk Freyju rekur Landhelgisgæslan flaggskipið Þór, tekinn í notkun árið 2011 og eftirlits- og sjómælingaskipsins Baldurs og hraðbátsins Óðins.