Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þetta er ófremdarástand“

16.08.2022 - 20:01
Mynd: RÚV/ Guðmundur Bergkvist / RÚV/ Guðmundur Bergkvist
Faðir 20 mánaða gamallar stúlku sem er ekki enn byrjuð á leikskóla segir að ástandið hafi tekið mikið á fjölskyldulífið. Óvissan sé algjör og fjölskyldan sjái fram á mikinn tekjumissi.

Ingi Bekk sá fram á að eiga notalegt fæðingarorlof með Sóleyju dóttur sinni þegar hann tók við af eiginkonu sinni í apríl á þessu ári. Þau eiga þrjár dætur og eru búsett í Grafarvogi en sáu snemma að allt væri fullt á leikskólum í hverfinu svo þau ákváðu að sækja um á öðrum leikskólum í vor. Sóley fékk strax inni á einum af nýju leikskólum borgarinnar, Ævintýraborg, sem er í byggingu á Nauthólsvegi. 

„Við fengum þar inn í maí með því loforði að við myndum komast þar inn í júní-júlí en svo hefur því verið frestað þar til að við fengum skilaboð um daginn, þau fyrstu í langan tíma, að hún færi í aðlögun í lok nóvember.“

Þegar Sóley fékk pláss á Ævintýraborg í vor datt hún út af biðlistum á öðrum leiskólum. Fjölskyldan getur ekki sótt um flutning á annan leikskóla fyrr en hún er byrjuð á Ævintýraborg í nóvember. Þau geta því lítið annað gert en beðið. 

„Þetta er bara ófremdarástand og er búið að vera miklu erfiðara en ég sá fram á, persónulega. Og er að hafa gríðarleg áhrif andlega á okkur fjölskylduna og mig persónlega mjög mikið því ég díla illa við óvissuna.“

Tekjulaus frá næstu mánaðamótum

Ingi klárar fæðingarorlof núna um mánaðamótin. Eftir það sér hann fram á tekjumissi og óvissu. Hann sagði upp starfi sínu í sumar og ætlaði að vera sjálfstætt starfandi sem hönnuður. Hann getur ekki ráðið sig í aðra vinnu þar sem hann veit ekki hvenær dóttir hans fær vistun. 

„Bara í síðustu viku voru fimm verkefni sem ég þurfti að neita. Það er einhver ein og hálf milljón í tekjumissi strax. Ég get ekki jánkað við einhverjum störfum sem ég get ekki uppfyllt.“

Svartsýnn á að borgin komi með lausnir

Hann segir að ástandið sem nú ríki sé óboðlegt. Foreldrar verði að fá svör og yfirvöld að grípa til að gerða. 

„Miðað við viðbrögðin sem við fengum á fimmtudagsmorguninn núna síðast þegar við vorum upp í Ráðhúsi að mótmæla þá er ég bara mjög svartsýnn. Borgarstjóri var ekki með nein svör og hann fór beint í það að útskýra þá stefnu sem hann og meirihlutinn settu á sínum tíma og hvað hefur gengið á síðan þá og hefur beðið um gögn í sumar til að leysa þessi mál. Það virðist enginn vera að flýta sér að græja þetta.“

Margir í erfiðri stöðu

„Núna þekki ég ekki alla sem er í þessari stöðu. Við stöndum ágætlega sem fjölskylda. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er fyrir fólk sem stendur miklu verr, peningalega og félagslega hvernig sem það er, því þetta bara tekur á.“

Einar þorsteinsson, formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra segir að nú sé leitað allra leiða til að vinna úr leikskólavandanum i borginni. Svara frá borginni er að vænta á fimmtudaginn.