Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mistök að lofa börnum plássum á ókláruðum leikskólum

16.08.2022 - 23:49
Einar þorsteinsson, formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra, segir að nú sé leitað allra leiða til að vinna úr leikskólavandanum i borginni. Svara frá borginni er að vænta á fimmtudaginn.

„Frá því að okkur varð ljóst hvernig staðan var núna síðsumars varðandi innritun barna að þá var bara allt sett í gang og nú höfum við unnið sleitulaust að því að leysa úr vanda þessara barna sem að lofað var plássi síðasta vor og ég er bara bjartsýnn á það að við náum góðri lendingu í því,“ sagði Einar í kvöldfréttum.

Hann segir borgarráð ekki tilbúið til að útlista þeim tillögum en þær verði kynntar á fundi borgarráðs á fimmtudaginn. Tillögurnar verði væntanlega einnig kynntar foreldrum, þar sem mótmæli hafa verið boðuð fyrir fund borgarráðs vegna ástandsins.

„Við erum að hlusta á þau, við skiljum þeirra stöðu og ivð ætlum að koma með tillögur sem bregðast við þessu skýra ákalli um skjótt viðbragð.“

Voru ekki algjör mistök að lofa plássum á þessum ókláruðu leikskólum?

„Við komum að málum hér í borginni eftir kosningar og við í Framsókn vorum ekki með þessi loforð, það voru aðrir flokkar.“

Hann segir Skóla- og frístundasvið hafa bent á að það hafi verið mistök að bjóða börnunum inn í skólana formlega, þó með fyrirvörum um mönnun og framkvæmdartíma.

„Jú, eflaust voru það mistök en staðan er bara þessi að við þurfum að sýna skjótt viðbragð og koma með einhverjar lausnir sem virka, foreldrar vilja það. Svo getum við bara lært ýmislegt held ég, bæði stjórnmálamennirnir og stjórnsýslan, af því hvernig við högum ákvörðunum í þessum málaflokki.“

Munu þessi börn komast inn á leikskóla núna fljótlega? 

„Ég ætla að bíða með það nákvæmlega að útskýra hvernig tillögurnar líta út en verkefnið er að finna pláss fyrir þessa krakka og ég er bjartsýnn á að það takist, segir Einar og bætir við að verið sé að gera allt sem borgin getur til þess að tryggja það.“

Hvetur verktaka til að einbeita sér að því að byggja leikskóla

Einar segir mönnunarvanda vera víða í samfélaginu og hvetur alla sem séu í atvinnuleit að sækja um starf á leikskólum.

„Svo vil ég líka hvetja verktaka sem eru að byggja að einbeita sér að því að byggja leikskóla, það skiptir máli.

„Það er bara samvinnuverkefni að byggja og stýra borg og það þurfa allir að leggjast á árarnar í því.“