Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Landverðir koma ekki í stað björgunarsveita

16.08.2022 - 20:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
„Landverðir koma aldrei í stað björgunarsveita við gosstöðvarnar, en þeir hjálpa til við að veita upplýsingar um náttúruna og öryggi á svæðinu.“ Þetta segir sviðsstjóri náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun. Tveir landverðir hefja störf eftir um tvær vikur en þrír munu sinna vörslunni um helgar. Þessi leið hafi verið farin í fyrra og reynst vel. Fréttastofu virðist sem málið sé statt í hringekju þar sem hver vísar á annan.

 

Eftirlit og öryggisgæsla á gosstöðvunum hefur mikið verið til umræðu síðustu sólahringa, sér í lagi eftir að björgunarsveitarfólk kallaði eftir liðslauka. 30-60 björgunarsveitarmenn víðs vegar að af landinu hafa annast eftirlit, björgun og ýmiss konar aðstoð í sjálfboðavinnu frá því að gosið hófst fyrir tveimur vikum en þúsundir heimsækja svæðið á hverjum degi.

Björgunarsveitarfólk hefur annast bílastæðagæslu, umferðarstýringu, vísað illa búnu fólki frá, sótt örmagna og illa búna ferðamenn og þá sem hafa slasað sig og þeir hafa gefið nestið sitt og drykkjarvatn. Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, sagði að ráðning tveggja landvarða á svæðið dygði ekki til og kallaði eftir sjálfboðaliðum úr ríkisstjórninni.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, hefur einnig óskað eftir því að ríkisstjórnin veiti fjármagni til sveitarfélagsins svo það geti tekist á við verkefnið frá sinni hlið. Fréttastofa hafði samband við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, í gær en Umhverfisstofnun, sem fer með mál landvarða, heyrir undir hann. Hann vísaði á Almannavarnir sem þyrftu fyrst að skilgreina vandann og þörfina á svæðinu og á grundvelli þess yrði fjármagni veitt í verkefnið. Sömu svör hafa fengist frá Jóni Gunnarssyni, dómsmálaráðherra. Almannavarnir vísuðu svo aftur á Umhverfisstofnun í gær og aftur í dag.

Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun segir að landverðirnir komi ekki í staðinn fyrir björguarsveitir.

„En landverðir sem við ætlum að vera með þarna þau eru þrautþjálfuð í að veita gestum upplýsingar og fræðslu til dæmis varðandi náttúruna en líka öryggi þannig að því tilliti til munum við létta á starfseminni þarna og veita gestum þessar upplýsingar sem þarf.“

Hversu margir landverðir munu sinna eftirlitinu á svæðinu?

„Á hverjum tíma á virkum dögum verða tveir og um helgar þrír.“

En fólk skilur ekki alveg hvernig tveir landverðir geta komið í staðinn fyrir 30-60 björgunarsveitarmenn sem hafa verið þarna á degi hverjum í tvær vikur?

„Auðvitað er það ekki ætlunin, alls ekki. Eins og að ég sagði þá koma landverðir ekki í staðinn fyrir björgunarsveitir en þeir hjálpa til, klárlega, í að leiðbeina fólki.“

En hvernig geta tveir menn stjórnað þarna og hjálpað þúsundum manna sem að heimsækja gosstöðvarnar á hverjum degi?

„Þeir geta ekki gert allt en hins vegar erum við að leggja til þessa leið. Og þessi leið var farin í síðasta gosi þegar að þessi fjöldi landvarða var á staðnum og viðbragðsaðilar töldu að það hefði hjálpað mikið að hafa einhverja aðila á staðnum.“

Stöður landvarðanna hafa verið auglýstar og frestur til að sækja um rennur út 25. ágúst.

„Þannig að við gerum ráð fyrir að þeir geti hafið störf um miðjan ágúst.

En þangað til þurfa björgunarsveitarmenn að sinna þessu eftirliti?

„Já, við erum bara ekki komin lengra með þetta verkefni.“

En hverju svariði þessari gagnrýni sem hefur komið fram, aðallega frá björgunarfólkinu sjálfu, að þetta dugi ekki til, -sé í rauninni bara eins og að skvetta vatni á gæs?

„Það er í rauninni ekkert sem við getum svarað. Það er verið að leggja til að landvarsla geti gert gagn þarna og það er þá bara ráðuneytið og hvernig að menn vilja verja fjármunum, hvort að það sé þessi leið eða önnur til að  hjálpa til við gosstövarnar.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV