Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kjör, aðstæður og aðbúnaður eru fíllinn í stofunni

16.08.2022 - 09:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hækkun starfsaldurs heilbrigðisstarfsmanna leysir ekki mönnunarvandann að mati BSRB og Sjúkraliðafélags Íslands, sem segir kjör, aðstæður og aðbúnað vera fílinn í herberginu, sem þurfi að taka á. 

Samkvæmt lögum um opinbera starfsmenn frá árinu 1996 ber að segja upp ráðningarsamningi við þá næstu mánaðamót eftir að þeir verða sjötugir. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra lagði fram frumvarp um breytingar á þessum lögum þannig að heilbrigðisstofnanir geti ráðið heilbrigðisstarfsmenn á aldrinum 70 til 75 ára til að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu og er þá ekki síst horft til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Frumvarpið er nú í samráðsgátt stjórnvalda og rennur frestur til að skila inn umsögn út á morgun. Fimm umsagnir hafa borist.

Ljósmæðrafélag Íslands tekur vel í fyrirhugaðar breytingar og telur þær bæta réttarstöðu heilbrigðisstétta sem vilja starfa lengur, en tryggja verði að ráðningarkjör verði eins og fyrr eða betri og hafi ekki neikvæð áhrif á lífeyrisréttindi.

Samtök atvinnulífsins fagna fyrirhuguðum breytingum enda vinnuaflsskortur tilfinnanlegur hér á landi, ekki bara í heilbrigðiskerfinu heldur meðal líka kennara og fleiri opinberra stétta.

BSRB segist í umsögn sinni hafa stutt afnám 70 ára reglunnar þannig að um heimild sé að ræða og litið yrði sérstaklega til lífeyrisréttinda. BSRB telur ekki með þessu frumvarpi verði hægt að leysa þann vanda sem því er ætlað og afar mikilvægt sé að breytingar sem þessar verði gerðar á forsendum starfsfólks en ekki atvinnurekenda.Það leggst ekki gegn breytingunum, en það skipti máli hvernig þær séu gerðar.

Sjúkraliðafélag Íslands telur heldur ekki að frumvarpið leysi mönnunarvandann. Ekki verði komist hjá því að bæta kjör, aðstæður og aðbúnað, það sé bleiki fíllinn í stofunni.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV