Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gosið ekki hálfdrættingur á við sem var

Mynd: Björn Steinbekk / Aðsent
Mjög hefur dregið úr eldgosinu. Hraunflæðið síðustu þrjá daga var um þriðjungur þess sem það var í fyrstu viku gossins. Tignarlegir gosbólstrar sjást greinilega í hægviðrinu á suðvesturhorninu. Meðal annars sést fjólublá lárétt slæða en það er hið eitraða brennisteinsdíóxíð.

Þrír til fjórir rúmmetrar á sekúndu

Skýjahula gerði gagnamælingar úr gervitunglum ómögulegar fyrstu daga gossins. Fyrstu gögn úr gervitungli komu í fyrradag. Auk þess eru teknar loftmyndir úr flugvélum.

Niðurstöðurnar eru þær að 4. til 13. ágúst var meðalhraunflæði 11 rúmmetrar á sekúndu. Mælingar á laugardag og í gær sýna hins vegar að hraunflæðið er aðeins þrír til fjórir rúmmetrar á sekúndu. Þótt óvissa sé í einstökum mælingum segir Jarðvísindastofnun að ekki sé um villst að mjög hafi dregið úr gosinu. Þetta sé í samræmi við það að undanfarna daga hafi gosopum fækkað og hrauntaumar runnið skemur í Meradölum en framan af. Ómögulegt er að segja til um á þessari stundu, segir á vef Jarðvísindastofnunar, hvort goslok séu nærri eða hvort nú sé aðeins tímabundið lágmark í gosinu. 

Fjólublá slæða í gosbólstrum

Margir á suðvesturhorninu póstuðu myndum á samfélgasmiðlum í morgun af glæsilegum gosbólstrum úr Meradölum sem höfðu himininn fyrir sig því það var heiðskírt. 

„Hann var bara mjög glæsilegur núna í morgun og líka heiðskírt og engin önnur ský til að trufla og óvenjulegt að því leyti að maður sér ekki kannski, það sést enginn gosmökkur neðst. Gösin eru bara það heit þegar þau koma upp um gíginn að þau ná ekki að þéttast strax, þau þurfa aðeins að kólna áður en þau ná að þéttast,“ segir Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur í loftgæðamálum og loftmengun á Umhverfisstofnun. 

Maður horfir annars á svona svepp eða bólstra og hins vegar er svona einhver slæða, kannski fjólublá slæða, þunn, sem að liggur lárétt, hvað er það?

„Þessi slæða er svona ekta litur fyrir brennisteinsdíoxíð. Þetta eru mjög skörp skil þarna, þetta er svona ákveðið veðurfræðifyrirbrigði líka.“

Veðurfyrirbrigðið eins og var í nótt;  hár loftþrýstingur og hægviðri, mynda ákveðið pottlok, segir Þorsteinn, þannig að erfiðara er fyrir mengunina að stíga upp. Eitruðu lofttegundirnar liggja því meira niður við jörð. Það var einmitt varað við slíku í fyrra að fara ekki í lægðir nálægt gosinu. Í svona veðri eins og er núna er líklegra að mengunin fari nær jörðu í þeim sveitarfélögum þar sem spáð er mengun. 

„Nú þegar svona veður fara að koma með haustinu að þá eru meiri líkur á að mælist niður við jörðu. Og meiri ástæða til að fara extra varlega við gosstöðvarnar í svona hægviðri og stillu.“

Svona sérfræðingur eins og þú í loftgæðum geturðu samt nokkuð annað en hrifist af þessari fegurð sem þarna blasir við?

„Nei, nei, þetta er náttúrulega bara mjög glæsilegt náttúrufyrirbæri sem við erum að horfa á þarna á allan hátt þó að það skapi vissulega ýmsar ógnir og hættur.“