Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Betra er seint en aldrei“

16.08.2022 - 22:54
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
„Betra er seint en aldrei,“ segir Emilía Rós Ómarsdóttir, sem hefur nú loks fengið formlega afsökunarbeiðni frá Íþróttabandalagi Akureyrar og Skautafélagi Akureyrar, fjórum árum eftir að skautaþjálfari hennar áreitti hana kynferðislega. Félögin afneituðu málinu og tóku ekki á því. Það varð svo alvarlegt að fjölskyldan sá þann kost einan í stöðunni að flýja og flytja til Reykjavíkur, en málið elti þau þangað.

Árið 2017 kom erlendur þjálfari til starfa við Skautafélag Akureyrar. Hann var þá 31 árs og Emilía var 17 og hafði æft skauta í mörg ár með miklum árangri.

„Og þegar hann byrjar að þjálfa hjá okkur þá byrjar hann eiginlega strax að áreita mig kynferðislega. Hann var vinalegur og talaði mjög mikið við mig en svo fór þetta mjög fljótt út í óþægilegar athugasemdir um það hvernig ég var vaxin og hvað ég væri falleg og eitthvað svona sem var ekki þægilegt. Svo fer þetta bara út í það að hann fer að bjóða mér út á stefnumót, fara út að borða, fara í ísbíltúr og fleira. Ég fann þarna að ég var ekki komin í góða stöðu og ég áttaði mig á því að það væri eiginlega alveg sama hvað ég gerði það myndi alltaf enda mjög illa fyrir mig.“

Eftir að Emilía gerði honum ljóst að þetta væri ekki viðeigandi stakk þjálfarinn upp á að þau hittust á leynistöðum þar sem enginn sæi til þeirra. Hún afsakaði sig í sífellu og sagðist vera upptekin.

„Og þá byrjar hann bara að hringja í mig jafnvel klukkan þrjú á nóttunni og endalaust að senda mér skilaboð. Og einu sinni plataði hann mig til þess að koma heim til sín því við þyrftum að ræða eitthvað æfingaprógramm.“

Og hvað ert þú gömul þarna?

„Þarna er ég 17 ára að verða 18. Hann gaf mér fullt af gjöfum, ilmvatn, armbönd og hjartalaga konfektöskjur svo eitthvað sé nefnt. Svo á endanum þá geri ég honum grein fyrir því að þetta væri ekki að fara að gerast og þá verður hann reiður og byrjar að hegna mér og yngri systrum mínum tveimur sem voru líka að æfa á þessum tíma. Hann fór að kenna mér og þeim um allt sem væri að í keppnum og í æfingahópunum. Hann sagði að ég hefði slæm áhrif á aðra iðkendur.“

Þá leitaði Emilía, með aðstoð foreldra sinna, til stjórnar Skautafélags Akureyrar og Íþróttabandalags Akureyrar en á það var lítið hlustað og maðurinn hélt áfram að þjálfa.

„Það var bara sagt að það yrði ekkert gert. Og ég var með sönnunargögn sem ég sýndi þeim en það hafði ekkert að segja. Ég var með skjáskot af skilaboðunum frá honum.“

Á endanum ákvað fjölskyldan að flytja suður til Reykjavíkur eftir að sögusagnir um málin voru orðnar óbærilegar fyrir Emilíu og fjölskyldu hennar.

„Íþróttabandalag Akureyrar sendir þá frá sér yfirlýsingu og segir að það hafi unnið með fagaðilum og engar sannanir séu fyrir því að þjálfarinn hafi brotið siðareglur eða mismunað neinum. Sögusagnirnar héldu svo áfram hér fyrir sunnan þar sem stjórnarmenn og þjálfarar hér fengu að heyra að þeir þyrftu að passa sig á mér og foreldrum mínum. Þau sögðu að þetta væru vandræðaforeldrar og að ég yrði alltaf bara til ótrúlega mikilla vandræða og eitthvað svona.“

Emilía sýndi áfram framúrskarandi árangur en var haldið frá keppni og öðrum tækifærum í þjálfun og fleiru sem leiddi til þess að hún hætti á endanum að æfa og þjálfa.

„Þau sögðu að ég væri í svo miklu andlegu ójafnvægi og að ég hefði verið svo vond við stelpurnar fyrir norðan.“

Emilía leitaði þá til ÍSÍ sem vísaði henni á Barnavernd og til lögreglunnar.

„Og ég segi bara: Ha? Á ég að leita til Barnaverndar? Og þau sögðu bara já og bættu við að ÍSÍ væri ekkert að höndla svona mál.“

Í hvert skipti sem Emilía og eða foreldrar hennar leituðu til einhvers til að reyna að fá yfirlýsingu Íþróttabandalags Akureyrar tekna til baka og afsökunarbeiðni var endalaust bent á einhverja aðra.

„Það var endalaust verið að kasta boltanum á milli án nokkurs árangurs og mér leið alltaf verr og verr.“

Og þetta er í miðri #metoo-byltingunni?

„Já.“

Það var svo ekki fyrr en fjölskyldan fékk sér lögmann sem fór að rannsaka málið og spyrja spurninga og senda formlegar fyrirspurnir til að rannsaka gundvöll mögulegrar lögsóknar sem afsökunarbeiðnin barst.

„Nú er loksins komin afsökunarbeiðni, fjórum árum síðar.“

Og hvernig líður þér með það?

„Ég er auðvitað ánægð með að vera búin að fá hana en þetta er svolítið lítið og svolítið seint. Þetta á ekki að þurfa að vera svona erfitt. En betra er seint en aldrei, býst ég við.“

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV