Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Árásarmaðurinn breyttist eftir ferð til Líbanon

Hadi Matar, 24, arrives for an arraignment in the Chautauqua County Courthouse in Mayville, NY., Saturday, Aug. 13, 2022. Matar, accused of carrying out a stabbing attack against “Satanic Verses” author Salman Rushdie has entered a not-guilty plea in a New York court on charges of attempted murder and assault. (AP Photo/Gene J. Puskar)
 Mynd: AP - RÚV
Móðir unga mannsins sem ákærður er fyrir að hafa ráðist á rithöfundinn Salman Rushdie segir son sinn hafa gerst trúræknari en áður eftir ferð til Líbanon árið 2018. Hann hafi sömuleiðis tekið að einangra sig.

Silvana Fardos, móðir Hadi Matar, er sjálf fædd í Líbanon en býr nú í New Jersey í Bandaríkjunum. Hún lýsir syni sínum sem mislyndum og dulum í samtali við breska götublaðið Daily Mail.

„Ég trúi ekki að hann skuli hafa getað gert nokkuð þessu líkt,“ segir hún og bætir við að sonur hennar hafi alltaf verið rólyndismaður sem öllum líkaði vel við. Hún segir hins vegar son sinn hafa breyst mjög eftir ferðina til Líbanon.

„Ég bjóst við að hann kæmi til baka fullur eldmóðs, tilbúinn til að halda áfram að læra, útskrifast úr skóla og finna sér vinnu.“ Þess í stað segir hún Matar hafa lokað sig inni niðri í kjallara.

„Ég get lítið sagt ykkur um líf hans eftir það, hann hætti nánast að hafa samskipti við mig árið 2018.“ Silvana Fardos segir son sinn yfirleitt hafa sofið á daginn og vakað á nóttunni eftir heimkomuna frá Líbanon.

Hún segist ekkert hafa vitað um Rushdie áður en sonur hennar réðist á hann. „Ég hafði ekki hugmynd um tilvist þessa rithöfundar og alls ekki að sonur minn hefði lesið þess bók eftir hann.“

Matar var handtekinn eftir að hann réðist á og veitti Rushdie fjölmargar hnífstungur við bókasamkomu í New York ríki á föstudaginn var. Rushdie er sagður á hægum batavegi en Matar neitaði allri sök frammi fyrir dómara.