Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Zvika Pick konungur ísraelska poppsins látinn

Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com

Zvika Pick konungur ísraelska poppsins látinn

15.08.2022 - 04:30

Höfundar

Ísraelski tónlistarmaðurinn Zvika Pick er látinn 72 ára að aldri. Hann naut gríðarlegra vinsælda í heimalandi þar sem hann var kallaður konungur poppsins. Pick fannst látinn á heimili sínu en ekki er enn vitað hvert banamein hans var.

Henryk Tsvika Pick fæddist í Póllandi árið 1949 en foreldrar hans settust að í Ísrael meðan hann var enn á barnsaldri. Hann vakti fyrst athygli heimafyrir þegar hann setti hippasöngleikinn Hárið á svið snemma á áttunda áratugnum.

Hann sendi í kjölfarið frá sér hvern poppsmellinn á fætur öðrum, þeirra á meðal Mary Lou sem Ísraelsmenn á öllum aldri þekkja mætavel. Pick samdi lagið Diva sem var framlag Ísreala í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1998 og hafði sigur í flutningi Dönu International.

Zvika Pick er tengdafaðir bandaríska kvikmyndaleikstjórans Quentin Tarantino sem gekk í hjónaband með dóttur hans, söngkonunni Daniellu árið 2018. Yair Lapid, forsætisráðherra Ísraels, minntist Pick í dag og sagði að tónlist hans myndi lifa með Ísraelum um ókomna tíð.