Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sendinefnd Bandaríkjaþings heimsækir Taívan

15.08.2022 - 02:30
epa10121097 A handout photo made available by the Taiwan Ministry of Foreign Affairs, shows (L-R), US Representative Alan Lowenthal, US Congressman John Garamendi, Taiwan’s Director-General Yu-Tien Hsu, of the Department of North American Affairs under the Ministry of Foreign Affairs, US Congressman Don Bayer, and Congresswoman Aumua Amata Coleman Radewagen, posing for photographs upon arrival at Songshan International airport, in Taipei, Taiwan, 14 August 2022. The delegation of US lawmakers will meet Taiwan senior officials to discuss US Taiwan relations, regional security, trade and investment, global supply chains, climate change, and other significant issues of mutual interest.  EPA-EFE/MOFA TAIWAN HANDOUT HANDOUT MANDATORY CREDIT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - MOFA TAIWAN
Sendinefnd á vegum Bandaríkjaþings kom til eyríkisins Taívan í gær nokkrum dögum eftir að Kínverjar efndu til sögulega viðamikilla heræfinga á svæðinu í kjölfar heimsóknar Nancy Pelosi, forseta fulltrúdeildar Bandaríkjaþings.

Ekki hafði verið tilkynnt fyrirfram um heimsókn nefndarinnar en það var sendistofnun Bandaríkjanna á Taívan sem greindi frá henni. Stofnuni starfar í raun sem sendiráð Bandaríkjanna í landinu.

Heimsókn Pelosi reitti Kínverja mjög til reiði en þingmennirnir hyggjast hitta háttsetta stjórnmála- og embættismenn, þeirra á meðal Tsai Ing-wen forseta.

Tilgangur heimsóknarinnar, sem er hluti yfirferðar hópsins um Kyrrahafssvæðið, er að ræða samskipti Taívan og Bandaríkjanna, öryggismál svæðisins, viðskipti og fjárfestingar, loftslagsmál og önnur mikilvæg mál.

Nefndin er skipuð öldungadeildarþingmanninum Ed Markey og fulltrúadeildarþingmönnnunum John Garamendi, Alan Lowenthal, Don Beyer og Aumua Amata Coleman Radewagen.

Utanríkisráðuneyti Taívan fagnaði komu þeirra og sagði heimsóknina til marks um hlýlega vináttu Bandaríkjanna og Taívan.

„Á sama tíma og Kínverjar bæta í spennuna hér á svæðinu sýna Bandaríkin stuðning sinn í verki með því að senda hingað þungavigtarfólk,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins.

Þingmennirnir fimm halda á brott frá Taívan á morgun, mánudag eftir fundi með embættismönnum og viðhafnarkvöldverð í boði Joseph Wu utanríkisráðherra.