Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ræða öryggismál, ástand hafsins og grænar breytingar

15.08.2022 - 08:10
Fánar norðurlanda
 Mynd: Norðurlandaráð
Varnarmál, ástand hafsins og grænar breytingar eru meðal þess sem forsætisráðherrar Norðurlandanna ræða á fundi sínum í dag, en fundurinn fer fram í Ósló. Einnig mun Olaf Scholz kanslari Þýskalands taka þátt í fundinum.

Norðmenn boðuðu til fundarins í tilefni að því að þeir fara með formennsku í norrænu ráðherranefndinni. Samvinna þjóðanna byggir á þeirri stefnu að Norðurlöndin verði árið 2030 það svæði heimsins sem verður sjálfbærast og best samþætt.

Viðræður norrænu forsætisráðherranna og Þýskalandskanslara munu snúast um öryggi í Evrópu og sambandið við Rússland og þær breytingar sem verða með inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í Atlantshafsbandalagið og ástandið í Úkraínu.

Fyrir utan sérfræðinga sem munu taka þátt, mun Kevin Rudd fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu fjalla um hlutverk Kína og afleiðingar þess fyrir norræn öryggis- og utanríkismál.
 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV