Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Farnir að fóðra fólkið sem er að labba þarna“

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Stöðugur straumur fólks er að gosstöðvunum. Formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar segir meira um að fólk slasist á úlnliðum og andliti og að björgunarsveitir þurfi oft að sjá fólki fyrir mat. Hraunið orðið nægilega hátt til að flæða út úr Meradölum.

Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu var aðsóknarmetið slegið enn og aftur í gær þegar hátt í 6.700 manns lögðu leið sína að eldstöðvunum og á laugardag voru það 6.500 og dagana þar á undan á fimmta og sjötta þúsund á dag. Alltaf hefur eitthvað verið um að fólk slasist og það hefur síður en svo breyst.

„Það hefur verið að aukast yfir allan daginn og menn eru detta svolítið öðruvísi en var að gerast síðast. Það er búið að vera svolítið mikið með úlnliði og andlit og fáránleg ofþreyta. Og svo erum við eiginlega farnir bara, sýnist mér, að fóðra fólkið sem er að labba þarna.“
Kemur það án nestis eða illa nestað bara?
Það getur ekki verið að það sé með mikið af nesti þegar það gefst upp á miðri leið.“ segir Bogi Adolfsson formaður Þorbjarnar.

Það sé því mikið um að fólk vanmeti aðstæður og sé alls ekki nógu vel búið fyrir ferðalagið. Þá sé alltaf eitthvað um fólk komi með börn undir tólf ára aldri, en sem kunnugt er hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum bannað aðgang þeirra að svæðinu á grundvelli almannavarnalaga. Bogi segir að það séu einkum erlendir ferðamenn sem átti sig ekki á þessu og gera þurfi meira til að koma upplýsingum á framfæri. Það sé meiri vinna en margir haldi að fara með tæki upp á svæðið til að sækja fólk sem ekki kemst sjálft leiðar sinnar.

Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands segir í tilkynningu í gærkvöldi að ef megin jaðar hraunsins leggst alveg að austurhlíðinni sem lokar skarðinu að Meradölum sé það orðið nægilega hátt til að geta flætt beint út úr Meradölum.