Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Brú í Noregi hrundi

15.08.2022 - 07:22
Mynd með færslu
 Mynd: Henning Hatlen - NRK
Brú sem liggur yfir ána Löginn í Guðbrandsdal í Upplöndum í Noregi hrundi í morgun. Vöruflutningabíll og fólksbíll höfnuðu í ánni. Hífa þurfti vörubílstjórann upp í þyrlu til að bjarga honum úr sjálfheldu. Ökumenn eru báðir ómeiddir.

Fréttamaður norska ríkisútvarpsins, NRK, á vettvangi segir að svo virðist sem brúin hafi brotnað á nokkrum stöðum en ekki er vitað um orsök.

Brúin, Tretten, er 148 metra löng trébrú, reist árið 2012. Hún liggur við bæinn Øyer og tengir fylkisveg við E6-þjóðveginn, sem liggur um endilangan Noreg og Suður-Svíþjóð.

Í ljós hefur komið að brúin var ekki byggð í samræmi við þágildandi regluverk, heldur eldri reglur sem höfðu fallið úr gildi átta árum áður. NRK greinir frá því að bent hafi verið á þetta í úttekt norsku vegagerðarinnar árið 2016 en ekki var talið að frávikin væru þess eðlis að ástæða væri til að aðhafast frekar.

Fréttin var uppfærð með nýjustu tíðindum klukkan 9:51.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV