Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vilja skoða uppbyggingu varaflugvallar í Skagafirði

Mynd með færslu
 Mynd:
Byggðarráð Skagafjarðar leggur til að Alexandersflugvöllur verði byggður upp sem varaflugvöllur fyrir Reykjavík og Keflavík. Formaður ráðsins skorar á Alþingi og innviðaráðherra að fara í nauðsynlega undirbúningsvinnu og rannsóknir.

Í bókun byggðarráðs Skagafjarðar frá síðasta fundi kemur fram, að vegna umræðu um þörf fyrir nýjan varaflugvöll, bendi ráðið á þann augljósa kost að byggja upp Alexandersflugvöll á Sauðárkróki. Í bókun segir að völlurinn sé vel staðsettur, á veðursælum stað og utan virks eldsumbrotabeltis.

„Við náttúrlega höfum upp á góðan kost að bjóða, sem varaflugvöll. Flugvöllurinn er til staðar og það þarf í sjálfum sér lítið gera til þess að það sé hægt að ná vélum úr loftinu og niður,“ segir Einar Eðvald Einarsson formaður byggðarráðs. 

„En það vantar náttúrlega, ef menn ætluðu að fara í eitthvað stærra dæmi þá vantar þjónustumiðstöð í kring. En bara sem varaflugvöllur og spurning hvort flugvélar geti lent þá eru aðflugsskilyrði sérstaklega góð. Þarf bara að malbika völlinn og stækka planið að þá er kominn þessi fíni varaflugvöllur.“

Þið skorið á Alþingi og ráðamenn að gefa þessu gaum, ertu bjartsýnn á að þeir skoði þennan kost?

„Já ég er bjartsýnn maður að eðlisfari þannig að ég trúi því ekki að þeir horfi framhjá okkur þegar verið er að meta þá kosti sem eruð í boði,“ segir Einar Eðvald Einarsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar.