Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þrefalt meiri bráðnun í Ölpunum í ár en síðasta áratug

14.08.2022 - 16:27
epa10113964 Tourists hike in front of the Bernina mountain group with the Pers and Morteratsch glaciers in Pontresina, Switzerland, 10 August 2022. The hot summer of 2022 is believed to set a new record in melting glaciers.  EPA-EFE/GIAN EHRENZELLER
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Allt bendir til þess að skarð í svissnesku Ölpunum, sem hefur verið ísilagt í aldaraðir, verði nú alfarið íslaust í lok sumars. Bráðnun jökla í Ölpunum verður þrefalt meiri í ár en síðustu tíu sumur að meðaltali.

 

Síðasti vetur var þurr í svissnesku Ölpunum og lítið um snjókomu. Í sumar hefur svo hver hitabylgjan komið á fætur annarri. Þetta þýðir að bráðnun jökla á svæðinu er fordæmalaust mikil, jafnvel á tímum hamfarahlýnunar.

Skarðið á milli fjallanna Scex Rouge og Tsanfleuron hefur verið ísilagt frá tímum Rómarveldis. Jöklarnir hafa nú hopað verulega og sýna mælingar umsjónarfólks skíðasvæðisins á staðnum að innan fáeinna vikna verði enginn ís eftir í skarðinu.

Í tilkynningu frá skíðasvæðinu sagði að ísinn hafi verið um fimmtán metra þykkur fyrir tíu árum. Þessir fimmtán metrar verða allir bráðnaðir þegar sumri lýkur.

The Guardian hefur eftir Mauro Fischer, jöklafræðingi og rannsakanda við Bern-háskóla, að bráðnun jökla í Ölpunum verði þrefalt meiri í sumar en hún hefur að meðaltali verið síðustu tíu sumur á undan. Fyrr í sumar varð þessi mikla bráðnun til þess að líkamsleifar tveggja manna fundust á Chessjen-jökli en mennirnir fórust fyrir meira en áratug.