Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Steypa upp í holur golfvalla í andófsskyni

14.08.2022 - 04:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðgerðasinnar í loftslagsmálum sunnanvert í Frakklandi hafa gripið til þess ráðs í mótmælaskyni að fylla holur á golfvöllum steinsteypu. Með því vilja þeir andæfa því að golfvellir eru undanþegnir skömmtun á vatni vegna þurrka.

Miklir þurrkar ríkja nú í Frakklandi og meðal annars eru á annað hundrað þorp og bæir án drykkjarvatns. Neyðarástandi hefur verið lýst í tveimur þriðju hlutum landsins í ljósi þess hve lítil úrkoma hefur verið um hríð. Víða geisa miklir gróðureldar.

Hvert og eitt sveitarfélag ákveður hvernig vatnskömmtun skuli háttað þótt tilskipun um hana komi frá ríkisstjórninni. Aðgerðarsinnarnir beina spjótum sínum að völlum nærri borginni Toulouse og segja golfíþróttina afþreyingu þeirra sem mest forréttindi hafi.

Þeir segja fjárhagslega vitfirringu trompa vistfræðilega visku. Éric Piolle, borgarstjóri Grenoble tekur undir það viðhorf og segir undanþágu golfvallanna sýna hve ríkt fólk og valdamikið njóti mikillar verndar.

Talsmenn golfvallanna segja hins vegar að án vökvunar eyðileggist flatirnar á þremur dögum. „Golfvöllur án flata er eins og ófrosið skautasvell,“ segir Gérard Rougier talsmaður Golfsambands Frakklands.

Aðeins má vökva golfvelli að næturlagi og ekki er leyfilegt að nota meira en 30% þess magn vatns sem venja er. Hvergi hefur verið bannað að vökva flatir golfvalla nema í Ille-et-Villaine, vestanvert í Frakklandi.