Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Spila úkraínska þjóðsönginn á vinsælum ferðamannastað

14.08.2022 - 07:32
epa09873657 Finland's Foreign Minister Pekka Haavisto gives a press conference ahead of a special meeting of NATO Ministers of Foreign Affairs on the Ukraine Crisis in Brussels, Belgium, 06 April 2022. NATO Ministers of Foreign Affairs will attend a working dinner on the evening of 06 April, and a second day of meetings on 07 April.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
 Mynd: EPA - RÚV
Yfirvöld finnsku borgarinnar Imatra hafa mótmælt innrás Rússa með sérstökum hætti frá því í lok júlí. Það er gert með aðstoð náttúruaflanna og tónlistar. Til stendur að draga úr útgáfu vegabréfsáritana fyrir rússneska ferðamenn.

Imatrankoski-flúðirnar austanvert í Finnlandi eru afar vinsæll ferðamannastaður, ekki síst meðal Rússa. Meira að segja heimsótti Katrín mikla keisaraynja Rússlands Imatrankoski árið 1772.

Fjölmenni kemur sér fyrir á næstum aldargamalli stíflu yfir boðaföllin á sama tíma dag hvern og fylgist með þegar hún er opnuð og vatnið streymir af miklum krafti fram.

Til að auka enn á upplifunina skapaðist sú siðvenja að spila tónlist finnska tónskáldsins Jean Sibelius á meðan. Borgaryfirvöld ákváðu að láta vanþóknun sína á innrás Rússa í ljós og hafa frá því í lok júlí látið leika þjóðsöng Úkraínu í staðinn.

Finnar finna leið til að fækka vegabréfsáritunum 

Finnsk yfirvöld íhuga nú jafnframt að draga úr vegabréfsáritunum fyrir rússneska ferðamenn. Schengen-reglur og finnsk lög leyfa slíkt ekki á grundvelli þjóðernis en Pekka Haavisto utanríkisráðherra segir til að mynda hægt að takmarka hve margar áritanir eru gefnar út dag hvern.

Finnland er eina ríki Evrópusambandsins sem ekki hefur sett takmarkanir á útgáfu slíkra áritana. Því hefur fjöldi Rússa notað Finnland sem viðkomustað á ferðum til annarra Evrópuríkja.

AFP-fréttaveitan hefur eftir rússneska ferðamanninum Mark Kosykh, sem staddur var við Imatrankoski-flúðirnar ásamt fjölskyldu sinni, að honum þyki þetta miður en hann skilji samt viðhorft Finna.

Hann sagðist vilja leggja ríka áherslu á að fjarri því allir Rússar væru fylgjandi innrásinni í Úkraínu. „Það standa ekki allir með Pútín, það verða allir að skilja,“ sagði Kosykh.