Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rostungurinn Freyja aflífuð vegna frægðarinnar

14.08.2022 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Frægasta sjávardýr Noregs um þessar mundir, rostungurinn Freyja, var aflífuð í morgun. Freyja hafði gert sig heimakomna í smábátahöfn nálægt Osló, en fékk engan frið fyrir aðdáendum sínum. Norsk stjórnvöld segja hættu á að hún hefði getað ráðist á fólk

Norska sjávarútvegsráðuneytið greindi frá þessu í fréttatilkynningu í morgun. Þar segir að almenningur hafi virt að vettugi beiðnir um að halda sig fjarri rostungnum; því hafi verið hætta á að Freyja myndi ráðast á fólk. 

Freyja, þessi sex hundruð kílóa kvenkyns rostungur komst í fréttirnar nýlega, eftir að hún gerði sig heimakomna í smábátahöfn nálægt Osló og átti það til að brölta upp á báta. Viðvera hennar fór fljótlega að spyrjast út; myndbönd af henni birtust á samfélagsmiðlum og fjöldi fólks fór að venja komur sínar að ströndinni til að fylgjast með Freyju. Stjórnvöld báðu almenning ítrekað að láta Freyju í friði; hún væri farin að sýna merki þess að vera stressuð og gæti mögulega verið hættuleg.

Í tilkynningunni frá sjávarútvegsráðuneytinu í morgun var tekið fram að ekki hefði þótt ráðlegt að flytja rostunginn á norðlægari slóðir, og því hefði ákvörðunin um að aflífa Freyju verið sú eina rétta í stöðunni.