Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nokkur skortur á vinnuafli vestanhafs

Mynd með færslu
 Mynd: Creative Commons Attribution - New York - Harlem, 125th street
Um gjörvöll Bandaríkin leita fyrirtæki stór og smá að starfsfólki. Störfin eru fleiri en fólkið sem getur sinnt þeim en talið er að fjöldinn allur hafi ákveðið að fara snemma á eftirlaun í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Ströng innflytjendalöggjöf bætir heldur ekki úr skák.

Opinberar tölur sýna að ekki tókst að ráða í tíu milljónir starfa í júní en innan við sex milljónir Bandaríkjamanna eru í atvinnuleit. Einkaneysla hefur aukist mjög síðustu mánuði og það vantar starfsfólk til að sinna öllu því kaupglaða fólki. Skráð atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki eða 3,5 prósent.

Hærri laun og fríðindi virðast ekki duga til að laða fólk til starfa. Verslunarráð Bandaríkjanna, málpípa atvinnurekenda, lýsir þessum vanda í nýlegri yfirlýsingu.

Hættu í faraldrinum en sneru ekki aftur

Fjölmargir sem yfirgáfu vinnumarkaðinn í upphafi faraldursins snemma árs 2020 hafa ekki snúið aftur. Úreikningar Verslunarráðs staðfesta að 3,4 milljónum fleiri væru á vinnumarkaði ef hlutfall þeirra sem eru í vinnu eða atvinnuleit væri það sama og fyrir faraldur.

Hlutfallið hefur lækkað úr 63,4 af hundraði niður í 62,1. Nick Bunker vinnumarkaðssérfræðingur hjá ráðningarþjónustu bendir AFP-fréttaveitunni á að meðalaldur bandarísku þjóðarinnar fari enn hækkandi.

Því hafi margir ákveðið að fara snemma á eftirlaun þar sem efnahagur þeirra leyfði það. Til skamms tíma þykir Bunker því ólíklegt að hlutfall fólks á vinnumarkaði hækki.

Diane Swonk, hagfræðingur hjá KPMG, segir að innflutt vinnuafl sé ekki nægilegt til að mæta fækkun vegna aldurs. Hún telur jafnframt að langvarandi áhrif Covid-sýkingar sé vanmetinn þáttur í því að fólk haldi ekki út á vinnumarkaðinn að nýju. 

Sérfræðingar telja líklegt að heldur kunni að draga úr eftirspurn eftir fólki þegar og ef kaupgleðinni linnir og eins ef Seðlabanki Bandaríkjanna heldur uppteknum hætti við hækkun vaxta til að draga úr áhrifum verðbólgu í landinu. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV