Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Metfjöldi fólks við eldstöðvarnar í gær

14.08.2022 - 08:04
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Alls fóru 6.496 upp að gosstöðvunum í Meradölum í gær samkvæmt teljurum Ferðamálastofu Íslands. Það er mesti fjöldi á einum degi síðan teljari var settur upp snemma eftir að eldgos hófust á Reykjanesskaga í fyrra.

Mesti fjöldi sem áður hafði farið að gosinu á einum degi var 6.032 þann 28. mars í fyrra, níu dögum eftir að fór að gjósa í Geldingadölum. 

Teljarar Ferðamálastofu eru á sama stað í dag og þeir voru þá enda liggur sama gönguleið upp að bæði eldgosinu í Geldingadölum og gosinu í Meradölum.

Eldgosið í Meradölum hefur ekkert breyst í eðli sínu frá því í gær, segir náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands. Gosórói hefur ekki minnkað neitt í morgun eins og gerðist í gær og hraun hefur ekki enn runnið yfir haftið sem hindrar för þess út úr Meradölum og í átt að Suðurstrandarvegi.