Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Keppast um að gera fallegustu eldgoss-brauðtertuna

14.08.2022 - 19:38
Mynd með færslu
 Mynd: Brauðtertufélag Erlu og Erlu - Facebook
Meðlimir í hópnum Brauðtertufélagi Erlu og Erlu á facebook keppast nú um að setja saman fallegustu brauðtertuna innblásna af Eldgosinu í Meradölum. Keppnin fer fram á síðu hópsins þar sem meðlimir setja inn myndir af sínum tertum, allir geta svo kosið með því að láta sér líka við myndirnar.

Erla Hlynsdóttir er önnur Erlan úr nafni brauðtertufélagsins. Hún segir hugmyndina að halda svona keppni hafa kviknað örfáum dögum eftir að eldgosið hófst. „Við höfum reynt að gera eitthvað skemmtilegt í þessum hóp, þó að það sé nú alltaf nógu skemmtilegt án þess. Það er endalaust verið að senda inn myndir af ótrúlega flottum brauðtertum.“

Brauðtertufélagið hefur ekki staðið fyrir netkeppni með þessu sniði áður en voru með keppni á menningarnótt 2019. Þar komu keppendur með terturnar og það var dómnefnd sem bæði dæmdi eftir útliti og smakkaði. Erla segir að það hafi alltaf verið meiningin að hafa slíka keppni árlegan viðburð. „Síðan kom covid og þá var hvorki menningarnótt né brauðtertu keppni. Þó að við höfum ekki lagt í menningarnótt í þetta skiptið þá fann maður að það var komin mikil spenna fyrir keppni. Þannig að við ákváðum að drífa bara í að halda svona keppni á netinu.“

Eingöngu er keppt í útliti en margir láta líka fylgja með upplýsingar um hráefni og skreytingar. Terturnar eru allar innblásnar, fjölbreyttar og flestar girnilegar. 

Myndaalbúmið með tertunum var opnað á hádegi í dag og stendur kosning yfir fram til hádegis á þriðjudag. Allir meðlimir hópsins geta síðan kosið með því að setja lyndistákn við mynd af brauðtertu. Verðlaun verða veitt fyrir þær brauðtertur sem hafna í efstu þremur sætunum.

Erla segir brauðtertugerð hiklaust vera listgrein, það sýni myndirnar. „Þetta er alveg ótrúlegt hugmyndaflug og sköpunargleði!“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Brauðtertufélag Erlu og Erlu - Facebook
Mynd með færslu
 Mynd: Brauðtertufélag Erlu og Erlu - Facebook
Mynd með færslu
 Mynd: Brauðtertufélag Erlu og Erlu - Facebook
Mynd með færslu
 Mynd: Brauðtertufélag Erlu og Erlu - Facebook
Mynd með færslu
 Mynd: Brauðtertufélag Erlu og Erlu - Facebook