Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Stríður straumur fólks að gosstöðvum

14.08.2022 - 12:10
Forsvarsmaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík segir að ráðning landvarða við gosstöðvarnar jákvætt skref og létta grunnálagi af sveitunum. Fjöldamet féll í gær þegar 6500 manns lögðu leið sína að eldgosinu. 

Þeim þremur sem handteknir voru vegna hnífsstungu við Ingólfstorg í fyrrinótt hefur öllum verið sleppt. Þeir eru ýmist undir eða yfir lögaldri, en allir yngri en tuttugu ára. 

Skálaverðir í Þórsmörk björguðu fimm erlendum ferðamönnum úr bíl sem sat fastur í Krossá um kvöldmatarleytið í gær. Formaður björgunarsveitarinnar á Hvolsvelli segir að ferðamennirnir hafi ekkert vitað hvað þeir væru að koma sér út í. 

Meira en fjörtíu manns eru látin og tugir eru særð, eftir eldsvoða sem braust út í morgun í kirkju í úthverfi Kaíró, höfuðborgar Egyptalands. 

Dómsmálaráðherra segir að efla þurfi varnir gegn stafrænum glæpum. Slíkir glæpir séu orðnir viðvarandi ógn hér á landi.

Byggðarráð Skagafjarðar leggur til að Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki verði byggður upp sem varaflugvöllur fyrir Reykjavík og Keflavík. Völlurinn sé á veðursælum stað og utan virks eldsumbrotabeltis.

Rostungurinn Freyja - sennilega frægasti rostungur í Noregi - var aflífuð í morgun. Norsk stjórnvöld segja að hún hafi ekki fengið neinn frið fyrir aðdáendum sínum og hætta hafi verið á að hún myndi ráðast á fólk. 

Hjólreiðamaðurinn Ingvar Ómarsson og sundmaðurinn Anton Sveinn McKee keppa á EM í dag. Ingvar í götuhjólreiðum og Anton í úrslitum 200 metra bringusunds. 

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12.20.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV