Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Búast við að fjöldametið í gær verði slegið í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi - RÚV
Nokkur erill hefur verið við gosstöðvarnar í Meradölum í dag. Mikill fjölda bíla er á svæðinu. Umferð tepptist lítillega áðan en greiðlega gekk að koma henni í eðlilegt horf. 

Aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum segir þó að gengið hafi þokkalega að stýra umferð og aðstoða þá sem hafa þurft. Eins og aðra daga hafa einhverjir göngumenn hlotið minniháttar meiðsli. 

Metfjöldi fólks fór að gosstöðvunum í gær eins og greint var frá í morgun. Viðbragðsaðilar sem Sunna Valgerðardóttir fréttamaður RÚV ræddi við í Meradölum áðan, segjast munu verða hissa ef metið í gær verður ekki slegið í dag

Alls þurftu 17 á aðstoð björgunarsveita að halda við gosið í gær. Vísa þurfti einhverjum fjölskyldum frá leið A upp að gosinu vegna þess að of ung börn voru þar með í för. Í tilkynningu sem lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér í morgun segir að ferðamenn hafi almennt sýnt því skilning. Börn undir 12 ára mega ekki ganga upp að gosinu.