Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrír í haldi lögreglu vegna hnífaárásarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Þrír eru í haldi lögreglu vegna hnífsstungu í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Þetta staðfestir varðstjóri lögreglu við fréttastofu.

Rannsókn málsins er enn á frumstigi og ekki hefur enn verið ákveðið hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þremenningunum. Trúlega verður það þó ákveðið seinna í dag eða í kvöld, segir varðstjóri.

Lögreglu er ekki kunnugt um líðan þess sem var stunginn. Hann var fluttur á sjúkrahús með meðvitund í nótt.

Varðstjóri lögreglu vildi ekki segja til hvort rætt hafi verið við vitni að árásinni. Hann ítrekaði að rannsókn væri á frumstigi og vildi því ekki greina nánar frá málinu. 

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að nýjar upplýsingar bárust frá lögreglu. Fyrirsögn var einnig breytt í samræmi við það.