Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sex spennandi hlaðvörp fyrir síðsumarið

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - Draugar fortíðar

Sex spennandi hlaðvörp fyrir síðsumarið

13.08.2022 - 12:00

Höfundar

Hlaðvarpið hentar við öll tilefni, hvort sem kúrað er undir teppi, setið við stýrið, staðið við eldamennsku eða heimilið þrifið. Íslendingar eiga ríkt safn af góðum hlaðvörpum sem henta vel í hið daglega amstur.

Hlaðvarpið hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár og er orðið meðal vinsælasta afþreyingarefnis í dag. Vefritstjórn hefur tekið saman sex spennandi hlaðvörp þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem leitað er eftir fróðleik, skemmtiefni eða jafnvel báðu. 


Leitin  

Sumarið 2004 fékk arkitektinn Þórarinn Þórarinsson óvenjulega fyrirspurn þegar ítalski verkfræðingurinn Giancarlo Gianazza bað hann um að aðstoða sig við að leita að hinu heilaga grali á hálendi Íslands. Í hlaðvarpsþáttunum Leitinni er fjallað um þetta ævintýralega ferðalag sem staðið hefur yfir í tæp tuttugu ár. 

Gianazza hefur rýnt í málverk ítölsku endurreisnarmálaranna og Hinn guðdómlega gleðileik Dantes og telur sig hafa fundið skilaboð um að hið heilaga gral væri falið á Íslandi, nánar tiltekið á Kili. Leitin fer með þá víða um hálendið og telja þeir sig hafa fundið leynistaðinn. Þetta er saga sem margir hafa heyrt um en enginn veit nákvæmlega út á hvað gengur, fyrr en nú.  

Þóra Hjörleifsdóttir rithöfundur og Halla Ólafsdóttir fréttaritari ræða þetta áhugaverða ferðalag sín á milli ásamt því að taka viðtöl við hina ýmsu einstaklinga sem málinu tengjast. 


Skápasögur 

Í tilefni Hinsegin daga sem nýlega stóðu yfir tók dagskrárgerðarmaðurinn Sigurður Þorri Gunnarsson sig til og ræddi við nokkra hinsegin einstaklinga um leið þeirra út úr skápnum.  

Sagt er frá leynilegum bréfasamskiptum við Samtökin ‘78, sjálfsfordómum, löngu biðferli hjá transteyminu og margvíslegum viðbrögðum vina og vandamanna. Einlægar frásagnir sem veita innsýn í líf hinsegin fólks og þær áskoranir sem það hefur þurft að glíma við. 


Draugar fortíðar  

Fyrir þau sem hafa áhuga á skemmtilegri sagnfræði eru Draugar fortíðar kjörinn kostur. Hér fræðir Flosi Þorgeirsson sagnfræðingur við vin sinn, Baldur Ragnarsson tónlistarmann, um áhugaverða liðna atburði. Áhersla er lögð á lítt þekkt atriði úr mannkynssögunni sem flest ættu að geta haft gaman af. 

Sumar sögur eru þess eðlis að hlustandi veltir fyrir sér hvers vegna ekki sé búið að gera kvikmynd um málið. Ástæður þess að sögur falla í gleymskunnar dá geta verið margvíslegar og oftast nær pólitískar en nú hefur þetta íslenska hlaðvarp grafið þær upp og varpar á þær ljósi.  


Morðcastið 

Sannsögulegir glæpir hafa verið eitt vinsælasta hlaðvarpsefni síðustu ára. Systurnar Unnur og Bylgja Borgþórsdætur halda úti glæpahlaðvarpi þar sem þær færa landanum umfjallanir um hrottaleg morð og ofbeldi í hverri viku.  

Þrátt fyrir þungt umfjöllunarefni tekst þeim systrum að slá á létta strengi og sjaldan er langt í grínið á meðan fórnalömbum er ávallt sýnd mesta virðing. Þær fjalla um frægustu morðmál sögunnar sem og lítt þekkt og leita þær til ýmissa heimshorna.  


Sterki maðurinn 

Hlaðvarpsþættirnir Sterki maðurinn eftir Guðrúnu Hálfdánardóttur fjalla um fimm núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtoga sem aðhyllast þjóðernispopúlisma. Þessa þætti ætti enginn sem lætur sig heimspólitík varða að láta fram hjá sér fara, þar sem farið er yfir hvernig þessir menn sönkuðu að sér völdum og hvernig þeir fara eða fóru með þau. 

Fjallað erum Vladimír Pútín frá Rússlandi, Silvio Berlusconi frá Ítalíu, Recep Erdogan frá Tyrklandi, Donald Trump frá Bandaríkjunum og Viktor Orbán frá Ungverjalandi.  


VÍDJÓ

Í hlaðvarpsþáttunum VÍDJÓ sýnir myndlistarmaðurinn Hugleikur Dagsson vinkonu sinni Söndru Barilli hlaðvarpsstýru allar perlur kvikmyndasögunnar. Hver þáttur er tileinkaður einni mynd af ótæmandi lista bíómynda sem Sandra hefur ekki séð áður.

Hlustendur mega ekki vænta neinnar málefnalegrar umfjöllunar heldur grínast þau vinirnir yfir kvikmyndum og segja sínar skoðanir án þess að skafa utan af þeim. Einnig fær hver kvikmynd „RÚV-legan“ titil á íslensku og má þar nefna Bingó í Vinabæ sem er að sjálfsögðu þýðing á When Harry met Sally.  

Tengdar fréttir

Tónlist

Hinsegin smellir á hátíðardegi

Sjónvarp

Fimm grípandi þáttaraðir til að háma í sig

Kvikmyndir

Sex sígildar sumarmyndir fyrir sólarlaus sumarfrí