Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Opnir vikurhaugar í Þorlákshöfn koma ekki til greina

13.08.2022 - 16:06
Elliði Vignisson Bæjarstjóri í Ölfusi
 Mynd: Fréttir
Sveitarstjóri í Ölfusi, Elliði Vignisson, segir að ekki komi til greina að hafa opna efnishauga á hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn. Þýskt fyrirtæki vill ferma mikið magn vikurs frá Mýrdalssandi og til Þorlákshafnar, þaðan sem honum verður siglt út í heim.

Fulllestaðir vöruflutningabílar munu aka allan sólarhringinn á kortersfresti milli Mýrdalssands og Þorlákshafnar allan ársins hring ef áætlanir þýska fyrirtækisins ganga eftir. Frá Þorlákshöfn er vikurinn síðan fluttur út í heim. Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi, segir ekki koma til greina að fyrirtækið fái að hafa opna efnishauga á hafnarsvæðinu sem nú er í uppbyggingu.

„Við höfum alveg gert þeim grein fyrir því að við erum ekki að fara að breyta skipulagi þannig að þeir geti verið með opna efnishauga á hafnarsvæðinu. Og þeir hafa ekki ennþá sótt um lóðir hjá okkur," segir Elliði. 

Elliði segir að lítið sé vitað um framkvæmdir þýska fyrirtækisins að svo stöddu. Sveitarstjórn hafi fundað með fyrirtækinu tvisvar áður þar sem það óskaði eftir lóðum undir starfsemi sína. Elliði segist ekki endilega trúa að verkefnið verði mjög atvinnuskapandi fyrir sveitarfélagið. 

„Eins og ég skil þetta, þá er þetta útflutningur á óunnu efni, sem þarf að flytja og haugsetja og flytja síðan um borð í skip. Og við eigum engar slíkar lóðir. Þannig ef þeir myndu vilja koma sér fyrir í sveitarfélaginu Ölfusi þá yrðu þeir að vera utan hafnarsvæðisins og við bara höfum ekki átt þetta samtal við fyrirtækið," segir EIlliði.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV