Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leyniskjöl meðal þess sem fannst við leitina hjá Trump

epa10112630 Authorities stand outside Mar-a-Lago, the residence of former president Donald Trump, amid reports of the FBI executing a search warrant as a part of a document investigation, in Palm Beach, Florida, USA, 09 August 2022.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alríkisdómari í Flórida í Bandaríkjunum samþykkti í dag að opinbera þau gögn sem tengjast heimild til húsleitar á heimili Donalds Trump fyrrverandi forseta. Skjöl sem innihalda háleynilegar upplýsingar eru meðal þess sem fannst við leitina.

Þau dómskjöl sem hafa verið gerð opinber sýna hvorki nákvæmlega hvaða gögn fundust á Mar-a-Lago sumardvalarstað Trumps né hvað í þeim stendur. Samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar af málinu rannsakar alríkislögreglan nú þann möguleika að Trump hafi brotið gegn lögum um njósnastarfsemi.

Lögregla fjarlægði um það bil tuttugu kassa með opinberum gögnum. Þeirra á meðal eru ellefu skjöl sem innihalda leynilegar upplýsingar. Slík skjöl ber eingöngu að varðveita í þar til gerðum opinberum byggingum.

Þetta kemur fram í kvittunum fyrir því sem tekið var. Sömuleiðis var þar að finna upplýsingar tengdar Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Dagblaðið The Washington Post greindi frá í gær að meðal þess sem leitað var væru gögn varðandi kjarnorkuvopnabúnað.

Trump þvertekur fyrir það og segir allt tal um slíkt vera bellibrögð. Hann andmælti ekki beiðni Merrick Garland dómsmálaráðherra um að skjöl tengd húsleitinni, heimildin sjálf og listi yfir það sem tekið var, yrðu gerð opinber.

Hins vegar segist forsetinn fyrrverandi vera fórnarlamb nornaveiða sem náð hefðu hámarki með húsleitinni á þriðjudag.

Hann staðhæfir að leynd hafi verið létt af öllum þeim skjölum sem hann geymdi í Mar-a-Lago og kveðst glaður hafa afhent þau yfirvöldum hefði þess verið beiðst.