Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandaríkjamenn hyggjast auka enn viðskipti við Taívan

epa06791485 The Taipei 101 sckyscraper in Taipei, Taiwan, 07 June 2018. Launched as the world's tallest building in 2004, the 509-meter Taipei 101 lost the title to Burj Khalifa (Khalifa Tower) in Dubai in 2010, but continues to be Taipei's top landmark and top tourist attraction.  EPA-EFE/DAVID CHANG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn hyggst auka enn á viðskipti við eyríkið Taívan í ljósi ögrandi framferðis Kínverja. Hvíta húsið greindi frá þessum fyrirætlunum í gær og að Bandaríkin hygðust auka nærveru sína á svæðinu.

Kurt Campell, samhæfingarstjóri fyrir málefni Kyrrahafs og Asíu, segir nýja og metnaðarfulla viðskiptaáætlun verða afhjúpaða á næstu dögum. Sömuleiðis megi Kínverjar búast við frekari umferð bandarískra herskipa um Taívansund á næstu vikum. Það sé í fullu samræmi við alþjóðalög.

Kínverjar hófu einhverjar viðamestu heræfingar sögunnar umhverfis Taívan eftir þangaðkomu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Campell sagði heimsókn hennar í samræmi við stefnu Bandaríkjamanna og að Kínverjar hefðu brugðist of harkalega við.

Taívanstjórn sakar Kínverja að nota heimsókn Pelosi sem skálkaskjól til heræfinga sem að lokum leiði til beinnar innrásar. Stjórnvöld í Kína telja eyríkið óaðskiljanlegan hluta alþýðulýðveldisins. 

Utanríkisráðuneyti Taívan lýsti í gær þakklæti fyrir þann stuðning sem Bandaríkjamenn veita. Með fulltingi þeirra segir ráðuneytið öryggi tryggt á Taívansundi og friður á öllu svæðinu. 

Campell vildi ekki tjá sig um fyrirhugaðan fund Xi Jinping Kínaforseta og Joes Biden forseta Bandaríkjanna en sagði að öllum samskiptaleiðum við Kínastjórn verði haldið opnum.