Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vikunámskeið beindi ferlinum á nýja braut

Mynd: RÚV / RÚV

Vikunámskeið beindi ferlinum á nýja braut

12.08.2022 - 09:23

Höfundar

„Ég fann bara að hér á ég heima,“ segir Vigdís Jakobsdóttir leikstjóri. Árið 2008 sótti hún vinnusmiðju í Venesúela þar sem áhersla var lögð á að ungt fólk hefði aðgang að leikhúsi. Þarna fann hún að hjarta hennar sló og sat í stjórn samtakanna í sex ár og síðar sem varaforseti þess.

Vigdís Jakobsdóttir er leikstjóri og listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. Hún er gestur Tengivagnsins á Rás 1 og ræðir tilviljanir, hvenær áhuginn kviknaði á leikstjórn og hvernig eitt A4-blað breytti lífi hennar.  

„Ég hef aldrei haft leikkonudrauma“ 

Þegar Vigdís var ellefu ára hafði hún þegar flutt sjö sinnum og því hvergi náð að festa niður rætur og myndað náin vináttubönd. „Ég var farin að reikna með því að vera alltaf nýi krakkinn í bekknum, ég var farin að reikna með því að eiga ekki vinkonur frá því í fyrra,“ segir Vigdís og rifjar upp hvernig hún öfundaði alltaf stelpurnar sem gátu sagt: manstu í fyrra?  

„Ég held ég hafi verið heppin, það er ákveðið lán sem í þessu felst, að vera flökkukind sem barn,“ heldur hún áfram. „Maður kynnist rosalega mörgu og sér margt,“ segir Vigdís og telur leiklistina hafa verið eina leið til að falla fljótt inn í hópinn. 

Fyrir vikið fékk Vigdís að kynnast mörgum kennurum og man sérstaklega vel eftir tveimur sem nýttu listina mikið í kennslustofunni, sér í lagi leikhúsið. „Ég held ég hafi smitast svolítið þar. Svo var þetta verkfærið mitt þegar ég kom ný inn í bekkinn, að ég gat þetta.“ 

„Ég var mjög fljótt sú sem var kannski að búa til leikþáttinn, frekar en að standa á sviðinu. Þannig ég hef aldrei haft leikkonudrauma,“ segir hún sposk. „Ég held ég hafi verið glötuð leikkona.“ 

Fræi sáð alveg óvart  

Fjölskyldan settist loks að á Ísafirði þegar Vigdís var ellefu ára og þar tók leikstjóradraumurinn sér fótfestu. „Ég var endalaust að stýra skemmtunum og atriðum í skólanum,“ segir Vigdís. Eitt skiptið þegar hún var fjórtán ára og leikstýrði sér ári eldri drengjum hafði vinkona hennar orð á því að hún ætti að gerast leikstjóri.  

„Ég hafði aldrei hugsað um það sem starfsvettvang eða svoleiðis. Þá alveg óvart sáir hún þessu fræi,“ segir hún. „Þetta varð svona draumurinn mjög fljótt eftir þetta, ég held þetta hafi verið þarna allan tímann.“ 

„Það hvað ég flakkaði mikið á milli held ég að hafi verið í raun og veru sá jarðvegur sem leikstjórinn í mér sprettur úr. Ég er alveg viss um það.“ 

Þurfti meira en Ísafjörð 

Foreldrar hennar, Jakob Ólason og Eygló Eymundsdóttir, voru alltaf á flakki í leit að atvinnu og spennandi tækifærum. „Þetta var ákveðin ævintýramennska,“ segir Vigdís. „Við lifðum aldrei skort, það var bara alltaf verið að elta tækifærin og nýja drauma. Byggja og selja hús, flytja á næsta stað.“ 

Vigdís erfði þennan eiginleika foreldra sinna og segist alltaf haft mikla útþrá og flutti út í nám beint eftir stúdentsprófið. Sem unglingur átti hún 67 pennavini um allan heim og lærði til að mynda að tala ensku með bréfasamskiptum. „Ég þurfti meira en Ísafjörð. Ég hef alltaf haft þessa útþrá, að þurfa tengingar út fyrir samfélagið litla.“ 

A4 blað átti eftir að breyta miklu 

Árið 2008 urðu miklar vendingar í lífi Vigdísar sem fleyttu hennar starfsframa á nýja braut. Um vorið hafði hún leikstýrt verkinu Norway Today eftir svissneska skáldið Igor Bauersima í Þjóðleikhúsinu. „Það fjallar um ungt fólk sem hittist á netinu og ákveður að fremja sjálfsvíg saman með því að stökkva fram af kletti í Noregi.“ 

„Þetta hljómar mjög þungt og er fyrir ungt fólk. Það fer í gegnum allar svona heimspekilegar tilvistarspurningar í einu verki, ótrúlega vel skrifað verk,“ segir Vigdís. Samhliða leikstjórn stýrði hún fræðsludeild Þjóðleikhússins. 

„Svo um haustið, þetta örlagaríka haust 2008 fyrir hrun, kemur Þórhallur Sigurðsson til mín með eitt A4 blað,“ segir Vigdís. „Hefði ég vitað hvað það ætti eftir að breyta miklu í mínu lífi þá hefði það verið svolítið öðruvísi upplifun að sjá þetta blað.“ 

Tabú í leikhúsi fyrir ungt fólk 

Þórhallur hafði fengið tölvupóst um námskeið sem haldið yrði í Venesúela og leitaði að þátttakendum. Leitað var eftir leikstjórum og leikskáldum sem höfðu að lágmarki fimm ára reynslu í atvinnuleikhúsi og áhuga á leikhúsi fyrir unga áhorfendur. Þennan tölvupóst hafði Þórhallur prentað út og farið með til Vigdísar.  

Á þessum tíma hafði Vigdís ekki unnið mikið með leikhús fyrir ungmenni fyrir utan þessa sýningu sem hún hafði stýrt um vorið. „En það sem kveikti í mér var þessi vinnusmiðja, resedensía þar sem listafólk kemur saman frá Suður-Ameríku og Norðurlöndunum, það heillaði í fyrsta lagi.“ 

„En viðfangsefnið var tabú í leikhúsi fyrir ungt fólk sem var nákvæmlega það sem þetta leikverk fjallaði um og ég var að takast á við. Hindranir og ótta innan leikhúss á viðfangsefninu,“ segir Vigdís sem spurði strax hvar hún gæti skráð sig.  

Ákvað að treysta og lét vaða  

Vigdís var ekki fyrr búin að kaupa sér flugmiðann út þegar efnahagshrunið skall á. Hún ákvað að hætta ekki við og fara samt og sér ekki eftir því. „Í desember fór ég á þessa vinnusmiðju þrátt fyrir hrun á heimsmörkuðum. Það skipti engu máli, ég var farin til Venesúela,“ segir Vigdís og hlær. „Þetta var á réttum tíma í mínu lífi.“ 

Hún rifjar upp að í flugvélinni skrifaði hún í dagbókina sína: „Ég ætla að fara út með opinn huga og opið hjarta.“ Hún þekkti engan sem var að fara og var örlítið óörugg með sig á leið á vit óvissunnar til einnar hættulegustu borgar í heimi, Caracas. „En ég bara ákvað að treysta og láta vaða.“ 

Er ekki í leikhúsi fyrir frægðina 

„Þessi rúma vika, hún í rauninni sneri mínum starfsferli við, eða beindi mér á alveg nýjar brautir sem hafa leitt mig til þess að vera núna listrænn stjórnandi Listahátíðar og svona,“ segir Vigdís. Í fyrsta sinn kynntist hún hópi fólks sem hún upplifði sem sitt klan.  

„Fólk sem er drifið áfram af sömu ástæðu í leiklistinni. Ég fattaði að ástæðan fyrir því að ég er að gera leikhús er að ég vil jafna tækifæri og gera heiminn einhvern veginn betri á minn vanmáttuga hátt. Það er þess vegna sem ég geri leikhús.“  

Það sé ekki vegna starfsframans sem hún vill starfa í geiranum eða til að þenja mörk listarinnar þrátt fyrir að það sé verðugt og fallegt þegar það sé gert. „Ég bara trúi á mátt sviðslistarinnar, reyndar bara listarinnar yfir höfuð, til að hafa ótrúlega mikilvæg og jákvæð áhrif á samfélagið og heimsfrið í raun og veru. Ef henni er beitt rétt og fallega.“ 

„Ég var strax komin við stjórnvölinn“ 

„Þetta fleygði mér inn í þennan heim á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Vigdís sem sótti sambærileg námskeið víða um heim og var þremur árum síðar komin í framboð til alþjóðastjórnar þessara samtaka, Assitej International. Þar starfaði hún sem málsvari þess að sem flest ungt fólk hafi aðgang að sviðslistum og geti notið þeirra „vegna þess að þær gera gott.“  

„Ég var strax komin við stjórnvölinn einhvern veginn,“ segir Vigdís sem var sex ár í stjórn og síðar varaforseti samtakanna. „Ég fór til Aserb­aísjan, Japan, Argentínu og út um allt, Úkraínu. Mjög víða um heiminn þar sem við vorum að vinna í þessum málum.“ 

„Þetta tengdi mig alþjóðlega inn í sviðslistageirann á einhvern hátt sem mér fannst ótrúlega spennandi. Ég fann bara að hér á ég heima, ég á heima í svona starfi,“ segir hún. Þrátt fyrir að sinna ýmsum öðrum verkefnum samhliða þessu starfi, líkt og að kenna við Listaháskólann og vinna í Þjóðleikhúsinu, sló hjartað alltaf þarna. „Þessi ár, og gerir enn. Þetta er fjölskyldan mín.“ 

Staðan gífurlega breytt  

Þegar Vigdís fór að beina sjónum sínum að leikhúsi fyrir ungmenni var staðan á Íslandi að sögn hræðileg. Eitt árið þurfti meira að segja að leggja niður Grímuverðlaunin fyrir barnasýningu ársins vegna þess að ekki voru nógu margar sýningar til að tilnefna. Sem betur fer sé staðan gífurlega breytt með auknu fjármagni og áherslu stjórnvalda á listir fyrir börn. Það sé ekki síður mikilvægt að skapa menningu og listir sem ungt fólk hefur aðgengi að heldur þurfi að leyfa þeim að taka þátt og láta raddir þeirra heyrast.  

Þetta þurfi að gerast um allan heim og þykir Vigdísi miður að ekki hafi allar þjóðir jafnt tækifæri til þess. Hún hafi komið inn í leikhús með moldargólfum eða í skemmum. „Eða bara engu,“ bætir hún við.  

Ekki sami lífsbreytandi hluturinn fyrir þau  

Vigdís telur mikilvægt að hafa farið inn í starfið með opnum hug. „Ég held að það sé ástæðan fyrir því að ég gat gert svona mikið úr þessari upplifun,“ segir hún. Af þeim 20 manns sem sóttu námskeiðið voru þau fjögur sem tengdust sterkum böndum og fóru lengra með starfið. „Hinir voru á kantinum og við erum alveg enn þá í sambandi við þau. En þetta var ekki sami lífsbreytandi hluturinn fyrir þau.“  

„Ég held að tíminn sem ég fékk þetta starf hafi verið hárréttur fyrir mig,“ segir Vigdís um starf sitt sem listrænn stjórnandi Listahátíðar. „Ég var tilbúin og óhræddari við að taka ákvarðanir byggðar á tilfinningu kannski og vita ekki endilega hvert það myndi leiða. Það hefur gefist mjög vel.“ 

Iðulega séu bestu ákvarðanirnar þær sem teknar eru alveg út frá hjartanu, jafnvel þó hún viti að þær eru áhætta og er óviss um þær. „En ég finn í hjartanu að þetta getur verið mikilvægt, það eru oft bestu ákvarðanirnar þegar á hólminn er komið.“  

Rætt var við Vigdísi Jakobsdóttur í Tengivagninum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilara RÚV.