Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þetta er meiri opinberun á mér“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta er meiri opinberun á mér“

12.08.2022 - 12:24

Höfundar

Þrír ættliðir kvenna taka höndum saman og halda listsýningu í Safnahúsi Borgarfjarðar. Svanheiður Ingumundardóttir, sem átti hugmyndina að uppátækinu, kvíðir meira fyrir að sýna með dóttur sinni og barnabarni heldur en þegar hún sýnir með hópi annarra kvenna.

Oft getur það hent að áhugi á listsköpun gangi í erfðir en það hlýtur þó að teljast nokkuð óvenjulegt að þrjár kynslóðir í sömu fjölskyldu standi saman að listsýningu. Í Safnahúsi Borgarfjarðar munu þær Svanheiður Ingimundardóttir og dóttir hennar Tinna Gunnarsdóttir og dótturdóttir hennar Tara Björk standa að slíkri sýningu. 

„Það er eiginlega mamma sem kom með þessa hugmynd,“ segir Tinna. „Hún hefur svo mikið verið að vatnslita og svo erum við allar svo listrænar, bæði ég og dóttir mín.“ 

Sýningin verður óhefðbundin að því leytinu til að sambland verður á listformum því bæði verður boðið upp á myndlist og tónlist. 

„Ég vona að þessu verði vel tekið“ 

„Það er mjög gaman að gera þetta með þeim,“ segir Svanheiður sem hefur áður haldið sýningar með stórum hópi listkvenna. „Ég er meira stressuð núna en í hin skiptin,“ segir hún. „Þetta er meiri opinberun á mér, finnst mér. Því ég er með svo margar myndir.“ 

Svanheiður notast við vatnsliti og málar borgfirsk fjöll og beinagrindur á meðan Tinna teiknar og syngur og Tara Björk spilar á píanóið. „Ég vona að þessu verði vel tekið,“ segir Svanheiður. 

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Gleði og glaumur í Hinsegin félagsmiðstöð

Mannlíf

Var kominn með bíladellu fjögurra ára

Umhverfismál

Draumurinn kviknaði í Disney World

Menningarefni

Líklega nóg fyrir flesta að læra þrettán jurtir á ári