Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þetta er ekki venjulegt sumar“

12.08.2022 - 20:48
Þurrkar ógna um 60% af Evrópu og vatnsyfirborð Rínar er að verða svo lágt að það gæti ógnað skipaumferð og vöruflutningum. Viðbúnaðarstig vegna langvarandi þurrka var hækkað á átta svæðum í Bretlandi í dag og milljónir Breta gætu þurft að takmarka vatnsnotkun á næstu dögum. 

Þurrkarnir í Bretlandi eru vel sjáanlegir á gervihnattarmyndinni hér að neðan.  Stór hluti Englands er skraufþurr, brúnn og gulur.

Mynd með færslu
 Mynd: Copernicus EU

Eftir fundarhöld í morgun ákváðu bresk yfirvöld að hækka viðbúnaðarstig vegna þurrka á átta svæðum. Meðal annars í Kent og suður Lundúnum. Á sama tíma er í gildi appelsínugul viðvörun vegna mikils hita á næstu dögum. 

John Curtin, framkvæmdastjóri hjá Umhverfisstofnun Bretlands segir þukana með þeim verri í manna minnum. „Þetta er ekki venjulegt sumar. Það er mikill vatnsskortur þarna. Líklega það versta sem við höfumséð síðan 1995 eða 1976 þegar hér varð alvarlegur þurrkur.“

Hækkað viðbúnaðarstig þýðir að íbúar á þurrkasvæðunum gætu þurft að takmarka verulega vatnsnotkun sína, en víða voru slíkar takmarkanir þegar í gildi. Í Yorkshire hefur verið í gildi svokallað „garðslöngu-bann“. Þar má ekki nota garðslöngur til að vökva garða eða þvo bíla.

„Þegar skrúfað er frá krana eða farið í sturtu kemur vatnið úr ám eins og þessari sem þýðir að við tökum það frá umhverfinu eða bónda sem gæti notað það í áveitu eða í uppskeru sem nærir okkur öll. Við þurfum að sýna að þetta er ekki eðlilegt og skylda okkar er að hugsa umuppruna vatnsins og nota það skynsamlega,“ segir Curtin.  f

Því fer fjarri að Bretar einir berjist við þurrka. Evrópska þurrkaathugunarstöðin birti þetta kort þar sem sést að þurrkar ógna um 60% af landsvæði Evrópu - mismikið þó. Annaðhvort gul, appelsínugul eða rauð viðvörun. 

Mynd með færslu
 Mynd: European Drought Observatory

Stjórfljótið Rín er þriðja lengsta fljót Evrópu. Vatnsyfirborð Rínar er nú orðið svo lágt að það gæti ógnað vöruflutningum á næstu dögum. Bastian Klein, sérfræðingur hjá þýsku vatnafræðistofnuninni hefur áhyggjur af þessu. „Vatnsborðið er um 40 sentimetrarí Kaub, þar sem dýptin er vanalega 1,5 metrar. Líklega lækkar enn í ánum fram á þriðjudag. Við reiknum meðum 35 sentimetrum til þriðjudags og vegna úrkomuspár í næstu viku ætti að hækka aðeins í ám aftur þá.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV