Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stjörnu-Sævar bendir á foreldra

Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson / RÚV
Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun að banna börnum yngri en tólf ára að fara upp að gosstöðvunum. Tilkynnt var um ákvörðunina á þriðjudag.

Þótt flestir fari að öllu með gát við eldgosið í Meradölum, hefur hegðun sumra vakið gagnrýni. Ekki síst þeirra sem farið hafa þangað með börn sín og farið óvarlega. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði á þriðjudag að ákvörðunin væri byggð á 23. grein laga um almannavarnir, sem heimilar lögreglstjóra á hættustundu að banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum með því að girða af eða hindra umferð. 

Sævar Helgi Bragason, þekktur sem Stjörnu-Sævar, hefur í mörg ár frætt börn og unglinga um vísindi, og hann segir að sér finnist frábært að umboðsmaður Alþingis skuli óska eftir skýringum.  

„Þetta er fyrst og fremst brot á annarri málsgrein barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, sem segir að öll börn skuli vera jöfn, og þegar við tökum einn hóp barna út fyrir sviga, þá sé ég ekki annað en að við erum að mismuna börnum. Við erum að meina þeim alveg einstakt tækifæri til þess að læra um náttúruna og að náttúran getur verið varasöm. Öll gos eru hættuleg, en þau eru mishættuleg og gosið sem er nú er ekki þess eðlis að það þurfi endilega að útiloka einn ákveðinn hóp frá því að heimsækja, heldur kannski frekar að höfða til skynsemis foreldranna að fara ekki þangað með krakka sem eru tveggja, þriggja, fjögurra, fimm ára.“

Sævari finnst aðalvandamálið ekki liggja hjá krökkum heldur bendir á foreldrana. Þeir séu oft á förum illa klæddir eða ekki í því formi sem þarf til að fara í fjallgöngu. Þann síðasta skiptið sem hann fór að gosstöðvunum og sá fólk sýna ábyrgðarleysi með því að grilla pulsur í logandi hrauni eða stökkva á það. Hann segir að það hafi alltaf verið fullorðið fólk en ekki krakkar. 

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir nánari upplýsingum um ákvörðunina, um gildistímann og nánari skýringum á lagagrundvelli hennar. Lögreglan vísaði nokkrum börnum frá eldgosstöðvunum í gær. 

margreta's picture
Margrét Adamsdóttir