Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafa áhyggjur af ofbeldismenningu í hreyfingunni

12.08.2022 - 09:41
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Stjórn Bárunnar stéttarfélags segir í yfirlýsingu að ömurlegt hafi verið að fylgjast með þeim forystumönnum stéttarfélaga sem hafi fagnað afsögn Drífu Snædal forseta ASÍ. Þá segist stjórnin fordæma allar tegundir ofbeldis og tilburði til eineltis.

Drífa sagði af sér á miðvikudag og sagði stemninguna frá ákveðnum formönnum aðildarfélaga ASÍ hafa verið þannig að hún treysti sér ekki lengur til að vinna í hreyfingunni.

Í yfirlýsingu sinni segir stjórn Bárunnar að Drífa hafi staðið sig með sóma í sínum störfum og lagt orku í að miðla málum.

„Hún stóð vörð um kjarasamninga og lífeyrisréttindi launafólks á tímum heimsfaraldar. Drífa hefur verið í forsvari gegn undirboðum á vinnumarkaði og sýnt mikinn kjark í að verja mannréttindi og kjarasamninga launamanna,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar eru einnig rifjuð upp mótmæli Drífu gegn uppsögnum starfsfólks Eflingar í vor. 

„Ekkert heyrðist frá formanni VR stærsta félagsins innan ASÍ né núverandi formanni Starfsgreinasambands Íslands. Nú hafa verið undirliggjandi hótanir um frekari hreinsanir starfsmanna verkalýðshreyfingarinnar. Þessi svokallaði armur hefur í gegnum tíðina gagnrýnt svokallað bákn verkalýðshreyfingarinnar sem að þeirra mati hefur ekki talað fyrir hönd láglaunafólks og þeirra sem minna mega sín,“ segir í yfirlýsingu Bárunnar. 

Nú sé sú staða komin upp að þessir sömu séu orðnir að „stóru valdamiklu bákni með sérhagsmuni að leiðarljósi“. Kveðst Báran hafa áhyggjur af því að ofbeldismenning nái yfir í hreyfingunni, sem stefni í að vera ólýðræðisleg og óaðlaðandi.

Stjórnin gagnrýnir Vilhjálm Birgisson, formann Starfsgreinasambandsins, fyrir viðtal á Bylgjunni þar sem hann er sagður hafa sent fráfarandi forseta kaldar kveðjur. Segir stjórn Bárunnar að Vilhjálmur hafi ekki talað fyrir hönd félagsins. Ekki hafi verið haldinn fundur meðal formanna Starfsgreinasambandsins þar sem árásir á fráfarandi forseta ASÍ hafi verið samþykktar.

Þá segist stjórn Bárunnar hafna öllu ofbelti, einelti og ærumeiðingum innan hreyfingarinnar.