Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldhvirfilbylur feykti upp reyk og ösku í Kaliforníu

12.08.2022 - 12:20
Mynd: AP / RÚV
Fjórir hafa látið lífið í gróðureldum í Kaliforníu á síðustu tveimur vikum. Sjaldgæfur eldhvirfilbylur myndaðist þegar hvirfilvindar feyktu upp eldi, reyk og ösku af miklum krafti.

Fyrir tveimur vikum kviknaði gríðarmikill eldur í Klamanth-þjóðskóginum í Kaliforníu. Fjórir hafa látið lífið vegna eldanna og hátt í tuttugu og fimm þúsund hektarar af skógi eyðilagst. Slökkviliðsmenn hafa nú að mestu náð að hemja útbreiðslu hans.

Eldhvirfilbyljir sjaldgæfir, en sjást þó æ oftar

Í gær náðust myndir af svokölluðum eldhvirfilbyl í skóginum, sem teygði sig yfir sextíu hektara landsvæði. Eldhvirfilbyljir eru nokkuð sjaldgæf fyrirbæri, sem myndast aðeins þegar eldsmaturinn er sérstaklega þurr og mikill hiti á jörðu niðri veldur sterkum vindi, upp frá eldhafinu. Eldhvirfilbyljir sjást þó æ oftar, með aukinni tíðni gróðurelda á heimsvísu.

Enn erfið staða í Frakklandi - Þurrkar í kortunum

Miklir gróðureldar hafa einnig geisað víða um Suðvestur-Evrópu undanfarna daga, þá einna helst nærri Bordeux í Frakklandi. Yfirvöld í Frakklandi greindu frá því í morgun að eftir margra daga baráttu væri þeim loks að takast að hemja útbreiðslu eldsins, sem spannar enn um fjörutíu kílómetra svæði.

Staðan er þó enn mjög viðkvæm. Í kortunum er áframhaldandi hiti og þurrkar í Evrópu. Ellefu hundruð franskir slökkviliðsmenn hafa fengið yfir þrjú hundruð manna liðsauka frá nágrannaþjóðum sínum, flesta frá Þýskalandi, Póllandi, Austurríki og Rúmeníu. Júlímánuður var sá þurrasti í Frakklandi síðan 1961.

Þrefalt stærra landsvæði hefur brunnið í gróðureldum í ár, en á meðalári síðustu tíu ár.