Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Mamma og pabbi eru miklir tjúttarar“

Mynd: Ingimar Ragnarsson/Hrísey / Aðsend/Samsett

„Mamma og pabbi eru miklir tjúttarar“

11.08.2022 - 12:51

Höfundar

Um helgina verður tjúttað í Hrísey á árlegri danshátíð sem haldin er í þriðja sinn. Ingimar Ragnarsson, kokkur og forsvarsmaður hátíðarinnar, er ekki mikill dansari sjálfur en er áhugasamur um hin ýmsu spor og spenntur fyrir því að spreyta sig með öðrum dansþyrstum gestum.

Danshátíð verður haldin í Hrísey um helgina og opin öllum. Ingimar Ragnarsson er dansstjóri hennar og ræddi hann hugmyndina að hátíðinni í Sumarmálum á Rás 1. Ingimar starfar sem kokkur hjá Bjórböðunum í Árskógarsandi á milli þess sem hann blæs til danshátíðar.

Hugmyndin að hátíðinni kviknaði árið 2019 þegar Ingimar sá þátt á N4 um danshátíð sem haldin var í Svíþjóð. Umfjöllunin heillaði Ingimar sem fannst hugmyndin hæglega geta gengið upp á Íslandi svo hann lét slag standa. „Ég ákvað því að færa þetta til Hríseyjar. Við smelltum í þetta 2019 og það tókst svona ljómandi vel.“

Danshátíðinni var sannarlega tekið fagnandi og það mættu margir í sveiflu. Árið 2020 var hún blásin af en í fyrra var hún smærri í sniðum vegna heimsfaraldurs. Nú verður hins vegar ekkert til sparað.

Á hátíðinni geta gestir lært línudans og annan dans sem kallaður er sænskt bugg og er að sögn Ingimars einstaklingsdans, ekki ósvipaður línudansi. Hátíðin hefst á föstudagskvöld með tónleikum með Rúnari Þór. Í framhaldi mun dansinn duna alla helgina því dgskráin heldur áfram daginn efti. Það verður dansnámskeið klukkan tvö á laugardainn en aðaldjammið hefst klukkan fimm og stendur til miðnættis, að sögn Ingimars.

Herlegheitin fara fram í félagsheimilinu Sæborg sem Ingimar segir að gæti ekki verið betri staður fyrir hátíðina. „Við erum með stórt tjald fyrir utan líka og þar má dansa,“ segir Ingimar. Hann viðurkennir þó að vera ekki mikill dansari sjálfur að upplagi. „En mamma og pabbi eru miklir tjúttarar, komin vel á áttræðisaldur.“

Rætt var við Ingimar Ragnarsson í Sumarmálum á Rás 1.