Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir Drífu hafa verið andlýðræðislegan forseta

10.08.2022 - 11:39
Mynd með færslu
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Vinnubrögð fráfarandi forseta ASÍ, Drífu Snædal, voru lokuð, andlýðræðisleg og vöktu undrun og gagnrýni, segir formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir.

Hún segir á Facebook, í tilefni af uppsögn Drífu í morgun, að hún hafi nýtt tækifærið með tilkynningu sinni til þess að hnýta í Sólveigu og stjórn Eflingar með ómálefnalegum hætti.

„Drífa talar um blokkamyndun," segir Sólveig og vísar til yfirlýsingar fráfarandi forseta. „Staðreyndin er sú að Drífa kaus sjálf að loka sig inni í blokk með nánasta samstarfsfólki forvera síns, Gylfa Arnbjörnsonnar, og þeirri stétt séfræðinga og efri millistéttarfólks sem ræður ríkjum í stofnunum ríkisvaldsins á Íslandi og einnig á skrifstofum Alþýðusambandsins. Uppruni, bakland og stuðningshópar Drífu voru í stofnana-pólitík og í íhaldsarmi verkalýðshreyfingarinnar, hjá fólki eins og Halldóru Sveinsdóttur formanni Bárunnar. Drífa gat aldrei stutt við það umbreytingaverkefni og endurnýjun sem ég, Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson höfum leitt með stuðningi mikils fjölda félagsfólks í okkar félögum um land allt. Það er staðreynd."

Segir Drífu hafa sýnt valdhöfum linkind

Sólveig Anna segir að Drífa fari með ósannindi þegar hún segist ætíð hafa verið reiðubúinn að vinna fyrir launafólk í landinu. Frekar hafi hún viljað semja við ríkisstjórnina og Samtök atvinnulífsins um frestun launahækkanna á meðan áhrifa kórónuveirufaraldursins gætti sem mest. 

„Drífa talar um að hún hafi aldrei vílað fyrir sér að "taka slaginn" gagnvart stjórnvöldum. Því miður er það ekki rétt eins og fjöldi dæma sýnir. Drífa Snædal vildi semja við ríkisstjórnina og SA um að hafa af verka- og láglaunafólki umsamdar launahækkanir í kórónaveirukreppunni. Og það hefði orðið raunin ef ekki hefði verið fyrir andstöðu Eflingar. Drífa vildi heldur ekki "taka slaginn" þegar Icelandair braut lög um stéttarfélög og vinnudeilur til að nauðbeygja flugfreyjur í miðri kjaradeilu - hún stöðvaði málssókn fyrir Félagsdómi og undirritaði þess í stað skammarlega hvítþvottaryfirlýsingu. Drífa tók heldur ekki slaginn um viðurlög gegn launaþjófnaði, heldur reyndi í tvígang að bera á borð fyrir aðildarfélög ASÍ handónýta lagasetningu þar sem staða fórnarlamba launaþjófnaðar hefði orðið verri en hún er nú," segir Sólveig. 

Drífa hafi ekki gengið í takt við breytingar

Þá segir Sólveig að ASÍ hafi mistekist, undir stjórn Drífu, að laga áherslur og starf sambandsins að þeim miklu breytingum sem urðu á stærstu aðildarfélögum þess árin 2017-18. Drífa hafi kosið að hlusta ekki á þá sem veita henni umboð til stjórnar ASÍ. 

„Vinnubrögð Drífu voru lokuð, andlýðræðisleg og vöktu iðulega undrun og gagnrýni, langt út fyrir raðir VR og Eflingar. Í málefnum vinnumarkaðarins voru nánustu félagar Drífu formenn BSRB og BHM. Hún hafði ekki áhuga á að hlusta á raddir forystu stærstu félaganna innan vébanda ASÍ," segir Sólveig.

Drífa Snædal sagði í morgun, þegar hún tilkynnti um afsögn sína, að ástæðurnar væru margar. Meðal annars að hún treysti sér ekki til að vinna með fólki sem hún á ekki samleið með í baráttunni fyrir bættum kjörum launafólks. Hún sagði einnig að átök innan ASÍ hafi verið óbærileg og dregið úr henni vinnugleði og baráttuanda. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir