Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mjaldri bjargað heilum á húfi úr Signu

10.08.2022 - 05:10
epa10113285 Onlookers and locals look on a team of rescuers managed an operation to move a lost Beluga whale locked in the Seine river in Saint Pierre la Garenne, Normandy Region, France, 09 August 2022. The strayed whale was first spotted on 02 August and a rescue operation will be conducted to move the beluga to a salt water basin before an eventual return to the marine environment.  EPA-EFE/Christophe Petit Tesson
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Björgunarfólki í París tókst í nótt að bjarga mjaldri á land sem svamlað hefur um í ánni Signu undanfarna daga. Mjaldurinn var fangaður í net og hifður með krana og komið fyrir á sérstökum pramma.

Fjöldi fólks fylgdist með aðgerðunum í nótt.  Á annan tug dýralækna og 24 kafarar ásamt öðru björgunarfólki í landi kom að björguninni en næsta skref er að flytja mjaldurinn í kælivagni til strandar.

Þar hefst hann við í saltvatnskví í þrjá daga uns honum verður sleppt á haf út. Ástand mjaldurins er sagt nokkuð viðunandi. Þótt sérfræðingar séu bjartsýnir getur þó farið svo að ferðalagið allt og vandræðin verði 800 kílóa dýrinu um megn og að það lifi ekki af.

Um það bil vika er síðan mjaldursins varð vart þar sem hann synti um Signu í áttina að París. Nokkuð dró af hvalnum eftir að hann festist milli læstra hliða í ánni og hann nærðist ekki.

Það tók kafara um sex klukkustundir að lokka mjaldurinn í netið. Náttúruleg heimkynni mjaldurs, sem er verndaður, eru heimskautahöf og því þykir nokkur ráðgáta hvernig hann rataði upp Signu. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV